Taken sjónvarpsþættir í bígerð

Eftir að hafa gert þrjár vinsælar Taken myndir með Liam Neeson í aðalhlutverkinu, hlutverki fyrrum leyniþjónustumannsins Bryan Mills, og föður, sem þurfti að bjarga fjölskyldu sinni úr háska, þá ætlar leikstjórinn og framleiðandinn franski Luc Besson nú að gera Taken sjónvarpsþætti.

taken2-still3

Deadline kvikmyndavefurinn segir frá því að NBC sjónvarpsstöðin bandaríska hafi ákveðið að láta framleiða Taken sjónvarpsþáttaseríu, sem yrði forsaga myndanna; þ.e. serían myndi gerast nokkrum árum áður en myndirnar gerðust.

Serían á að fjalla um Bryan Mills þegar hann er ungur.

Í fyrstu myndinni þá er dóttur Mills rænt þar sem hún er á ferðalagi í París. Eftir að hann nær sambandi við einn af óþokkunum sem rændu henni, þá lýsir hann því yfir við hann að martröð hans, þ.e. ræningjans sé rétt að byrja, enda sé hann sérþjálfaður í að misþyrma óþjóðalýð eins og honum.

Mills gerir svo nákvæmlega það sem lofað var og kemur öllum meira og minna fyrir kattarnef.

Í þáttunum munum við sjá hvernig Mills varð sá sem hann er. Sú athyglisverða nálgun verður þó farin að sagan á að gerast í nútímanum, þrátt fyrir að hann eigi að vera ungur.

Taken 1 þénaði 226 milljónir Bandaríkjadalaum allan heim, en kostaði 26 milljónir dala, Taken 2 þénaði 376,1 milljón dala, en kostaði 45 milljónir dala, og Taken 3 þénaði 325,7 milljónir dala en kostaði 48 milljónir dala. Það er því deginum ljósara að hugmyndin er skotheld gróðamaskína.

Nú er bara spurning hver muni leika hinn unga Mills?