Stephen Lang-bestur: Frjór og fjölbreyttur ferill

Í tilefni af frumsýningu hryllingsmyndarinnar Don’t Breathe 2 í dag ætlum við hjá Kvikmyndir.is að líta aðeins yfir feril leikarans Stephen Lang sem snýr aftur í aðalhlutverki kvikmyndarinnar sem hinn miskunnarlausi Norman Nordstrom.

Lang fæddist í New York 11. júlí árið 1952. Hann á sér langan feril sem leikari og hefur starfað á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Hann hóf ferilinn sem leikari á Broadway og hefur meðal annars leikið Happy í Death of a Salesman, ofurstann Joseph í Few Good Men, Mike Tallman í Wait Until Dark og Lou í The Speed of Darkness. Var hann tilnefndur fyrir Tony verðlauna fyrir hið síðastnefnda árið 1992.

Skrifar eigin leikrit

Norman Nordstrom blóðugur upp fyrir haus.

Hann hefur einnig skrifað sín eigin leikrit. Árið 2004 byrjaði Lang að leika í einleiknum Beyond Glory sem er byggð á bókinni Beyond Glory: Medal of Honor Heroes in Their Own Words eftir Larry Smith. Lang segir þar sanna hetjulega sögu af átta hermönnum sem fengu heiðursorðu fyrir þjónustu sína. Hann lýsir reynslu þeirra í stríðinu með þeirrar
orðum: ,,Þetta eru sögur sem fólk myndi kannski ekki þekkja nema ég segi frá þeim,” sagði Lang í viðtali við CBS árið 2019. Hann hefur sýnt einleikinn yfir 500 sinnum á fjölbreyttum stöðum, allt frá herstöðvum til Broadway. Lang hlaut tilnefningu til Helen Hays verðlauna fyrir leikritið.

Frá sviði yfir á hvíta tjaldið. Lang hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína í kvikmyndum. Hann er meðal annars þekktur fyrir að leika blaðamanninn Freddy Lounds í Manhunter (1986), titilhlutverkið í Babe Ruth (1991) og Stonewall Jackson í Gods and Generals (2003). Í sjónvarpi er hann mest þekktur fyrir að leika lögfræðinginn David Abrams í sjónvarpsþáttunum Crime Story (1986–88) og Ben Charnquist í The Fugitive (2000-2001).

Lang leynir á sér í spennutryllinum Manhunter frá Michael Mann.

Fór í prufu fyrir Aliens

Snemma á ferlinum fór Lang í prufu fyrir hlutverk undirliðsþjálfarans Dwayne Hicks í Aliens (1986). Það hlutverk fór reyndar í hendur James Remar en Lang átti síðar meir eftir að fá að vinna með leikstjóranum James Cameron í stórmyndinni Avatar (2009) þar sem hann lék illmennið Miles Quaritch, hlutverk sem landaði honum Saturn verðlaunum og er án efa hans þekktasta frammistaða. Mun hann svo snúa aftur sem Miles í komandi framhaldsmyndunum.

Árið 2016 fór Lang með aðalhlutverkið í hrollvekjunni Don’t Breathe og fékk hann mikið lof fyrir leik sinn. Þar leikur hann blinda manninn, Norman Nordstrom, sem er langt því frá auðvelt skotmark eins og þjófarnir sem brjótast inn til hans eiga eftir að komast að raun um.

Lang gefur skipanir í stórmyndinni Avatar.

Það má með sanni segja að Stephen Lang hefur gefið af sér margt gott í gegnum árin. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og sýnt að hann geti leikið ýmiss konar hlutverk og aðlagað sig að ólíkum miðlum allt frá leiksviði, til sjónvarps og til kvikmynda. Einnig hefur hann sýnt að hann er fullfær um að skrifa sín eigin verk.

Stephen Lang helgar sig að verkefnunum og frammistaða hans er jafnan eftirminnileg og vönduð.