Stallone og De Niro buffaðir – fyrsta mynd

Tvær gamlar boxmyndahetjur, þeir Sylvester Stallone og Robert De Niro, eru nú að leika saman í box-gamanmyndinni Grudge Match, eins og við höfum sagt frá áður hér á síðunni.

Flestir kannast við Sylvester Stallone í hlutverki Rocky Balboa í sex Rocky myndum, en Robert De Niro lék Jake LaMotta í Raging Bull, og fékk Óskarsverðlaunin fyrir leik sinn.

Nú hefur fyrsta myndin úr Grudge Match verið birt, en hún birtist á Twitter samfélagsvefnum í gær. Sjáðu myndina hér að neðan:

De Niro og Stallone eru þarna í miðju myndarinnar, vel buffaðir eftir erfiðan slag í hringnum að því er virðist, en til hægri er leikmaður New Orleans Hornets, Robin Lopez, en ekki hafa verið borin kennsl á manninn til vinstri ennþá.

Leikstjóri Grudge Match er Peter Segal, sem leikstýrði m.a. Anger Management.

Grudge Match fjallar um tvo fyrrum boxara sem ákveða að taka boxhanskana niður af hillunni í eitt lokaskiptið, 50 árum eftir að þeir slógust síðast.

Ásamt Stallone og De Niro þá leika í myndinni Kevin Hart, Alan Arkin, Kim Basinger og  jon Bernthal úr The Walking Dead sjónvarpsþáttunum, en hann leikur son De Niro en Hart leikur kynni á hnefaleikakeppninni. Basinger er svo aftur kona sem er í miðju atburða.