Spielberg skammast sín fyrir Indiana Jones 4

Í tilefni 30 ára afmæli útgáfu Raiders of the Lost Ark héldu þeir félagar Steven Spielberg og Harrison Ford sérstaka sýningu á myndinni í Los Angeles. Þegar myndinni lauk gátu aðdáendur spurt þá spjörunum úr og kom ýmislegt skemmtilegt í ljós.

Spielberg uppljóstraði að upprunalega átti Ford að fara með hlutverk Dr. Alan Grant í Jurassic Park myndunum áður en Sam Neill hreppti hnossið. Á sama hátt var það Tom Selleck sem var ráðinn í hlutverk Indiana Jones en þegar leikstjórinn sá The Empire Strikes Back kom ekki annað til greina en að hringja í Harrison Ford.

Leikstjórinn heimsfrægi var ekki alltaf jafn vinsæll og hann er í dag en hann viðurkenndi að eina ástæðan fyrir því að hann ákvað að leikstýra Raiders of the Lost Ark var sú að hann var staurblankur. Hann sér varla eftir þeirri ákvörðun í dag.

En stund kvöldsins var þegar Steven Spielberg viðurkenndi fyrir fullum sal að hann skammaðist sín fyrir fjórðu myndina í Indiana Jones seríunni, Indiana Jones & the Kingdom of the Crystal Skull. Þegar hann nefndi myndina fagnaði einn áhorfandinn og svaraði Spielberg, „Þetta var sá eini sem við glöddum með þeirri mynd.“