Næsta Bond mynd kemur í nóvember 2012

Næsta James Bond mynd, sú 23. í röðinni, verður frumsýnd í nóvember 2012, samkvæmt fréttum frá Bang Showbiz fréttaveitunni. Líklegt er að Daniel Craig muni leika James Bond eins og í síðustu tveimur myndum.

Verkefnið hefur verið í bið vegna fjárhagsvandræða MGM kvikmyndaversins, en fyrkrtækið hefur nú sótt um að vera tekið til gjaldþrotaskipta þar sem skuldirnar, sem taldar eru vera um 4 milljarðar Bandaríkjadala, hafa vaxið því yfir höfuð.

Gjaldþrotabeiðnin hefur samt orðið til þess að James Bond er loksins kominn af stað og hefur fyrirtækið gefið út að það hyggist gefa út nýja James Bond mynd annað hvert ár frá og með árinu 2012.

MGM bætti því við að það vonaðist eftir að eiga 50% í myndinni, sem enn hefur ekki fengið nafn, og fá inn samstarfsaðila til að borga framleiðslukostnaðinn, en stefnir að því að fjármagna alfarið og eiga þær Bond myndir aðrar sem gerðar verða í framhaldinu.

Leikstjórin Sam Mendes hafði hætt við að vera með í næstu mynd vegna tafanna við myndina, en nú er líklegt að hann stökkvi aftur um borð, en hætti í staðinn við að leikstýra myndinni The Hunger Games, sem var hugsanlegt næsta verkefni.

Talið er að Daniel Craig verði Bond eins og í síðustu myndum, en það eina sem gæti komið í veg fyrir það er að framleiðslan gæti rekist á við tökur á bandarískri útgáfu Karlar sem hata konur þríleiknum, eða The Girl With The Dragon Tattoo, eins og hann heitir á ensku.