Hvítklæddur Bond á nýju plakati

Daniel Craig er reffilegur sem njósnari hennar hátignar, 007, á nýju plakati fyrir myndina Spectre. Þar stendur hann í hvítum jakkafötum með byssu í hendi, alvarlegur á svip.

craig

Útlitið er sígilt og minnir nokkuð á myndir Roger Moore hér á árum áður. Má þar nefna myndir á borð við The Man With the Golden Gun, Octopussy og A View to a Kill.

Í Spectre ferðast James Bond til Mexíkó þar sem hann á í höggi við glæpasamtök sem kallast Spectre.

Auk Craig leika í myndinni Christoph Waltz, Monica Bellucci, Lea Seydoux og Ralph Fiennes.

Leikstjóri er sem fyrr Sam Mendes. Myndin er væntanleg í bíó í lok október.