Handrit Guardians of the Galaxy Vol. 2 tilbúið

James Gunn, sem leikstýrði Guardians of the Galaxy, hefur lokið við handrit framhaldsmyndarinnar Guardians of the Galaxy Vol. 2.

Gunn tilkynnti um áfangann á Facebook og Instagram með því að setja þar mynd af forsíðu handritsins. Þar kemur fram að um fimmta og síðasta uppkastið er að ræða.

guardian

„Þetta gerist þegar þú setur heilann á milli handa þinna og kreistir út hvern einasta dropa,“ sagði hann og bætti við að handritið væri á leiðinni í pósti til helstu leikara myndarinnar.

Guardians of the Galaxy kom út 2014 við mjög góðar undirtektir. Tökur á framhaldsmyndinni hefjast í Atlanta í Georgíufylki í febrúar og er hún væntanleg í bíó vorið 2017.

Leikararnir sem snúa aftur í framhaldið eru: Chris Pratt (Star-Lord), Zoe Saldana (Gamora), Dave Bautista (Drax), Bradley Cooper (Rocket), Vin Diesel (Groot), Karen Gillan (Nebulda), Michael Rooker (Yondu) og Sean Gunn (Kraglin). Ný viðbót við leikaraliðið verður Pom Klementieff (Oldboy).