Flúraður Kingsley og Harrison Ford í Ender´s Game – Vídeó

Fyrsta stiklan fyrir framtíðarmyndina Ender´s Game sem margir bíða eftir, er væntanleg á þriðjudag. Framleiðendur myndarinnar frumsýndu stikluna á CinemaCon hátíðinni á dögunum en í meðfylgjandi vídeói þá eru sýnd örfá brot úr myndinni, auk þess sem þeir Harrison Ford og Asa Butterfield hafa smá formála að myndinni og stiklunni.

Í vídeóinu sést m.a. leikaranum Ben Kingsley bregða fyrir í hlutverki Mazer Rackham, vel húðflúruðum í framan, en fyrsta myndin af honum í hlutverkinu var einmitt birt í síðustu viku og sést neðar í fréttinni.

Hér fyrir neðan er vídeóið:

Söguþráður myndarinnar er svona: Jörðin var tvisvar lögð í rúst af the Buggers, geimverukynstofni sem virðist vera ákveðinn í því að eyða mannkyninu. Sjötíu árum síðar, þá er mannfólkið á Jörðu sameinað í því að koma í veg fyrir eigin útrýmingu af hendi þessara tæknilega mjög háþróuðu geimvera. Ender Wiggin, rólyndur en snjall drengur, gæti orðið bjargvættur mannkynsins. Hann er skilinn að frá sinni ástkæru systur og sínum ógnandi bróður, og færður í bardagaskóla djúpt í geimnum. Hann verður prófaður þar og breytt í morðingja sem byrjar á því að hata sjálfan sig samhliða því sem hann lærir að berjast fyrir Jörðinni og fjölskyldu sinni.

Harrison Ford leikur Graff hershöfðingja og Asa Butterfield leikur Ender Wiggin. Leikstjóri er Gavin Hood.

Eins og fyrr sagði þá verður stiklan frumsýnd á þriðjudaginn og fer sú sýning fram á Youtube.com og á google.com, en framleiðendur hafa skipulagt svokallað Google Hangout á þriðjudaginn þar sem leikstjórinn, framleiðandinn Robert Orci og Asa Butterfield, munu mæta. Aðdáendur geta lagt spurningar fyrir hópinn og skráð þátttöku sína með því að smella hér.

Ender’s Game verður frumsýnd 1. nóvember nk. hér á landi og í Bandaríkjunum. Aðrir leikarar eru m.a. Hailee Steinfeld, Viola Davis, Abigail Breslin, Nonso Anozie, Moises Arias og Aramis Knight.