Skrítið hlutverk Harrison Ford í Anchorman 2

Harrison Ford segir hlutverk sitt í Anchorman 2: The Legend Continues vera stórskrítið

Ford leikur gamalreyndan fréttamann í svokölluðu „cameo“- hlutverki í gamanmyndinni. Í aðalhlutverkum verða Will Ferrell, Christina Applegate, Paul Rudd og Steve Carell.

„Vonandi verður þetta dálítið öðruvísi en annað sem ég hef gert. Maður vill ekki endurtaka sig,“ sagði Ford við Entertainment Tonight. Hann hefur áður leikið fréttamann í Morning Glory. „Þau báðu mig um að leika í myndinni áður en þau vissu að ég væri búinn að leika í Morning Glory.“

Hann hélt áfram: „Það yrði auðvelt að klippa mig út úr myndinni. Þetta er ekki mikilvægt hlutverk, heldur aðallega skrítið.“

Leikstjóri Anchorman 2: The Legend Continues er Adam McKay sem einnig gerði fyrri myndina. Framleiðandi er Judd Apatow. Myndin er væntanleg í bíó vestanhafs 20. desember.

Hinn sjötugi Harrison Ford hefur í nógu að snúast. Næsta mynd hans er hafnarboltamyndin 42, auk þess sem vísindaskáldsögumyndin Ender´s Game er væntanleg. Að auki stefnir allt í að hann endurtaki hlutverk sitt sem Han Solo í Star Wars Episode 7.