Indiana Jones 5 í gang í apríl

Harrison Ford, aðalleikari kvikmyndarinnar Call of the Wild, eða Óbyggðirnar kalla, sem frumsýnd verður hér á Íslandi um næstu helgi, 21. febrúar, segir að tökur á fimmtu Indiana Jones kvikmyndinni, gætu hafist næsta sumar.

Indiana Jones og faðir hans.

Hollywoodstjarnan, sem er orðin 77 ára gömul, staðfesti í spjallþætti Ellen DeGeneres, að hann myndi ná í svipuna góðu inn í geymslu, og skrýðast búningi fornleifafræðingsins, í eitt skipti til viðbótar.

„Þetta verður gaman. Það er rosalega gaman að gera þær [Indiana Jones kvikmyndirnar].“

Fyrstu þrjár Indiana Jones kvikmyndirnar eru fyrir löngu orðnar sígildar, Raiders Of The Lost Ark (1981), Temple Of Doom (1984) og The Last Crusade (1989). Ford sneri aftur árið 2008 og gerði mynd númer fjögur, Kingdom Of The Crystal Skull, sem er ekki eins dáð og hinar þrjár.

Í öðru viðtali, nú við CBS sjónvarpsstöðina, sagði Ford að tökur myndarinnar gætu jafnvel hafist í apríl nk.

Og í viðtalinu sagðist hann elska að hitta aftur sígildar persónur sem hann hefur skapað á hvíta tjaldinu, eins og Han Solo í Star Wars.

„Tækifæri sem gefst til að gera nýja mynd, er einungis tilkomið af því að fólk hefur notið myndanna,“ sagði Ford.

„Mér finnst ég bera skyldu til að metnaður okkar sé jafn mikill eins og hann var þegar við byrjuðum upphaflega að gera kvikmyndirnar.“

Enginn frumsýningardagur hefur verið ákveðinn fyrir nýju myndina.