Fleiri æfir yfir HBO Max herferðinni: „Ólöglegt niðurhal mun sigra“

Það fór aldeilis ekki lítið fyrir tilkynningu kvikmyndaversins Warner Bros. þegar ákveðið var að gjörbreyta útgáfuplani 17 væntanlegra stórmynda. Ákvörðunin felur það í sér að gefa kvikmyndir félagsins út á streymisþjónustu HBO Max á sama tíma og þær eiga að lenda í bíóhúsum. Þetta skipulag kom mörgu kvikmyndagerðarfólki í opna skjöldu og er ljóst að þessar breytingar eru iðnaðinum mikið hitamál.

Margir hverjir leikstjórar, framleiðendur og aðrir aðstandendur þessara stórmynda frá Warner hafa látið í sér heyra og sagt kvikmyndaverinu til syndanna. En til gamans má nefna fáeinar kvikmyndir sem lenda á HBO Max á sama tíma og þær verða frumsýndar í kvikmyndahúsum: t.a.m. Tom & Jerry, Godzilla vs. Kong, Mortal Kombat, In The Heights, Space Jam: A New Legacy, The Suicide Squad, Dune og Matrix 4.

Ekki bjartsýnn á framhald Dune

Kvikmyndagerðarmaðurinn Christopher Nolan var fyrstur til að tjá óánægju sína opinberlega og lýsti hann þar gífurlegum vonbrigðum sínum gagnvart kvikmyndaverinu sem hann hefur unnið fyrir síðastliðin tuttugu ár. Nolan gagnrýnir Warner Media fyrir að hafa ekki ráðfært sig betur við aðra framleiðendur eða kvikmyndagerðarfólk almennt og telur þetta allt vera gífurlega óreiðukennt.

„Allir kvikmyndaframleiðendur gera sér grein fyrir því að bíóiðnaðurinn muni snúa aftur og mun það skipta iðnaðinn miklu máli til langs tíma. Í þessum iðnaði eru fullmargir að notfæra sér faraldurinn sem afsökun til að innleiða og festa í sessi lausn sem þessa. Þetta er leiðindamál,“ sagði Nolan í viðtali við ET Online.

Sjá einnig: Í vinnu hjá verstu streymisþjónustunni

Denis Villeneuve, leikstjóri nýju Dune kvikmyndarinnar, skrifaði opið bréf til fréttamiðilsins Variety og fordæmir þar fjarskiptafyrirtækið AT&T, eiganda Warner Media. Villeneuve sagði sagði ákvörðunina með HBO Max vera hallærislega tilraun hjá fyrirtækinu til að auglýsa nýju streymisveitu sína. Samkvæmt leikstjóranum verður þetta aðsókn Dune-kvikmyndarinnar að falli.

Upphaflega stóð til að frumsýna Dune þennan vetur áður en kórónaveirufaraldurinn magnaðist og færðist hún til októbermánaðar 2021. Áform voru að framleiða tvær myndir upp úr fræga doðranti Franks Herbert og er komandi kvikmynd Villeneuve og hans teymis byggð á fyrri hluta . Leikstjórinn er nú ekki bjartsýnn á að seinni helmingurinn verði gerður.

„Með þessari ákvörðun mun Dune ekki fá tækifæri til að hala inn almennilegar tekjur og ólöglegt niðurhal mun sigra. Það er ekki ólíklegt að Warner Bros. hafi drepið alla möguleika Dune á framhaldi,“ sagði Villeneuve í bréfinu.

Skiptilykli hent í tannhjólin

Judd Apatow, leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur, ræddi einnig við Variety og var orðlaus yfir samskiptaleysi kvikmyndaversins við starfsfólkið. Vill Apatow meina að ákvörðunin með HBO Max og skammur fyrirvari hjá Warner svíki marga framleiðendur og stjörnur undan tekjum á bakendanum. Heimildir herma að fólk sem málið snertir hafi boðist greiðslur í skaðabætur en upphæðirnar þykja sérlega umdeildar.

„Vanvirðing af þessu tagi er eitthvað sem við heyrum oft um í skemmtiiðnaðinum en að koma svona fram við hvern einasta starfsmann er hneykslismál,“ sagði Apatow.

Þá greindi The Hollywood Reporter frá því að James Gunn, leikstjóri og handritshöfundur The Suicide Squad, hafi ekki tekið fréttunum vel. Á fréttavefnum greinir heimild frá því að Gunn sé æfur yfir málinu en leikstjórinn hefur ekki enn tjáð sig opinberlega.

Zack Snyder, leikstjóri Justice League og fleiri DC/Warner-mynda, var ögn jákvæðari en þeir ofantöldu en er hann þó sammála punkti Nolans um að iðnaðurinn noti Covid fullmikið sem afsökun fyrir gjörbreytingu markaðarins.

Snyder sagði í viðtali við Entertainment Weekly á dögunum að áætlunin hafi ekki verið sérlega vel hugsuð út. Að hans sögn var útlit fyrir að rekstur bíóhúsa væri að sigla í betra horf, en herferð HBO Max setji allt á hliðina. „Ég var orðinn hægt og rólega bjartsýnni en með þessari stefnu er verið að henda skiptilykli í tannhjólin,“ sagði Snyder.

Sjá einnig: Segir bíóin ekki vera í útrýmingarhættu