Ein Lethal Weapon í viðbót?

Að færa sígildar kvikmyndaseríur aftur upp á hvíta tjaldið er góð íþrótt, en útkoman er misjöfn, og móttökur áhorfenda og gagnrýnenda sömuleiðis. Sú allra nýjasta, Bad Boys for Life, er til dæmis að gera það gott í kvikmyndahúsum hér og víða annars staðar um þessar mundir, en töluvert er frá frumsýningu síðustu myndar í seríunni.

Svalir félagar.

Nýjustu fréttir af upprisu gamalla kvikmyndaraða er það að frétta að Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið hyggst nú gera nýja Lethal Weapon kvikmynd, og samkvæmt framleiðandanum Dan Lin, þá eru líkurnar nú meiri en nokkru sinni fyrr á að þetta verði að veruleika.

Lin sagði í hringborðsumræðum vefritsins The Hollywood Reporter, að aðal stjörnur kvikmyndaseríunnar, Mel Gibson og Danny Glover, sem og leikstjórinn Richard Donner, væru klárir í slaginn, en fyrir nokkrum árum síðan voru fluttar fréttir af því að málið væri á samningsstigi.

“Við erum að reyna að koma einni loka Lethal Weapon kvikmynd á koppinn,” segir hann. “Og Dick Donner mætir aftur til leiks. Upprunalegu leikararnir sömuleiðis. Þetta verður geggjað. Sagan verður mjög persónuleg fyrir hann. Mel og Danny eru klárir, þannig að nú snýst þetta um handritið.”