Bad Boys for Life í uppnámi

Bad Boys for Life, framhald hinna gríðarvinsælu Bad Boys frá árinu 1995 og Bad Boys II frá 2003, er horfin af útgáfulista Sony framleiðslufyrirtækisins, en upphaflega átti að frumsýna myndina 9. nóvember 2018. Framtíð myndarinnar, sem er með þeim Will Smith og Martin Lawrence í aðalhlutverkum, er því komin í uppnám.

Fyrr á þessu ári þá hætti leikstjórinn Joe Carnahan við að leikstýra myndinni vegna listræns ágreinings.

Í upprunalegu myndinni léku Smith og Lawrence þá Mike Lowery og Marcus Burnett, tvo félaga og rannsóknarlögreglumenn í fíkniefnadeild lögreglunnar í Miami.

Í fyrstu myndinni reyna félagarnir að endurheimta 100 milljón bandaríkjadala virði af heróíni sem mafían stal úr geymslum lögreglunnar, í kappi við tímann áður en deildin þeirra verður lögð niður.

Í Bad Boys II rannsökuðu þeir mikið innflæði af sterkri alsælu til Miami. Þó að þeirri mynd hafi ekki verið vel tekið af gagnrýnendum, voru góðar tekjur af myndinni um allan heim, eða um 270 milljónir dala.

Smith, 48 ára og Lawrence, 51 árs, hafa samþykkt að snúa aftur í þriðju myndina.

Frestunin sem nú er orðin er af ýmsum ástæðum að talið er, þar á meðal er annríki Will Smith nokkur þröskuldur.

Jerry Bruckheimer, framleiðandi fyrstu tveggja myndanna, sagði í apríl síðastliðnum að handrit myndarinnar væri í smíðum.