Draugabanar og tennispabbi

Bíómyndirnar tvær sem koma í kvikmyndahús í þessari viku og þeirri næstu eru nokkuð ólíkar, svo ekki sé meira sagt. Önnur myndin er sannsöguleg, en hin er tja …. ekki sannsöguleg, enda fjallar hún um draugagang og draugar eru ekki til, eða hvað ?

King Richard fjallar um bandarísku tennis ofurstjörnurnar Venus og Serena Williams og frægðarferil þeirra. Yfir hverju skrefi vakti faðir þeirra Richard Williams sem varð snemma sannfærður um að dæturnar gætu náð alla leið á toppinn.

Venus og Serena Williams, sem leiknar eru af Saniyya Sidney og Demi Singleton, eru tvær af sigursælustu tennisleikurum allra tíma, en Serena hefur unnið 23 stór mót í einstaklingsflokki, sem er met hvort sem litið er til karla eða kvennatenniss. Venus hefur unnið sjö alslemmur, en það er þegar þú vinnur allar fjórar stóru keppnirnar í Ástralíu, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum á sama keppnistímabilinu.

Faðir og dætur.

Systurnar eru báðar aðstoðarframleiðendur kvikmyndarinnar ásamt eldri systur sinni Isha Price, sem tók virkan þátt í gerð myndarinnar.

Myndin var upphaflega frumsýnd á Telluride kvikmyndahátíðinni í september síðastliðnum og hefur fengið góða dóma, bæði fyrir söguna sem sögð er í myndinni og Will Smith fyrir leik sinn.

Opnaði augun

Serena Williams hefur sagt að þrátt fyrir öll afrekin á 24 ára löngum ferli, þá hafi það verið opinberun að sjá sögu þeirra systra sagða á bíótjaldi í Holllywood mynd. “Satt að segja þá er ekkert orð sem lýsir því betur en „óraunverulegt“, að sjá þessar ótrúlegu leikkonur og alla sem að myndinni komu, ná að setja saman sögu um þetta ferðalag okkar og pabba,“ sagði Serena Williams.

Draugalegt

Draugabanarnir, í Ghostbusters: Afterlife, eru eins og fyrr sagði ekki sannsöguleg mynd, en þetta eru þó persónur og sögusvið sem hefur lifað með okkur í næstum fjörutíu ár en fyrsta Ghostbusters kvikmyndin var frumsýnd árið 1984, sælla minninga.

Ghostbusters: Afterlife er beint framhald Ghostbusters 2 frá 1989 og gerist sagan þrjátíu árum eftir atburðina í þeirri mynd. Við kynnumst hinni einstæðu móður Callie og tveimur börnum hennar, táningsdregnum Trevor og undrabarninu Phoebe. Eftir að faðir Callie deyr þá drífur fjölskyldan sig til Summerville í Oklohoma, þar sem þau hyggjast hefja nýtt líf.

Afinn er draugabani

Þarna kemur tengingin við gömlu myndirnar því faðir Callie var enginn annar en Egon Spengler, draugabaninn sem leikinn var af Harold Ramis. Ramis var höfundur fyrstu tveggja Ghostbusters myndanna ásamt Dan Aykroyd, sem lék einnig einn af draugabönunum.

Fljótlega kemur í ljós að nýju heimkynni litlu fjölskyldunnar eru á stað þar sem yfirnáttúruleg virkni kraumar undir yfirborðinu. Húsið sem afinn skildi eftir handa þeim er líka einstaklega draugalegt en neðanþilja í húsinu finnur Phoebe einmitt gömlu draugagildru afa síns.

Þess ber að geta að Paul Rudd, sem nýlega var valinn kynþokkafyllsti maður heims af tímaritinu People fer með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni.

Búið er að færa frumsýningu myndarinnar aftur um eina viku, eða til 26. nóvember.