Skoða eldfjöll á Íslandi fyrir Disney+

Eins og greint var frá í sumar var bandaríska stórstjarnan Will Smith í tökum á Íslandi fyrir sjónvarpsþátt. Nú hefur fengist staðfest að verkefnið hafi verið á vegum kvikmyndagerðarmannsins Darren Aronofsky, sem framleiðir ásamt National Geographic fyrir streymisveituna Disney+.

Þáttaröðin ber heitið Welcome to Earth og mun Smith sjást þar í einum þætti ferðast víða um Ísland, yfir sjó, land og einnig grandskoða virk eldfjöll. Leikarinn verður út þáttaröðina í fylgd könnuða frá National Geographic með það að markmiði að skoða ýmislegt opið og falið á okkar jörðu.

Tökur á Welcome to Earth fóru fram í ágúst síðastliðnum og var leikarinn staddur víða á Norðurlandinu. Muna eflaust einhverjir eftir því þegar tökuliðið tók Stuðlagil í Jökulsársgljúfrum á leigu. Framleiðslufyrirtækið Truenorth var leikaranum innan handar og fylgdi tökuliðið ströngum sóttvarnareglum vegna faraldursins.

Will Smith birti mynd af sér í sumar við Dettifoss á Instagram. Á henni má sjá leikarann og frumkvöðullinn Jay Shetty brosa við fossinn, en myndin var birt í tilefni þess að Shetty átti afmæli.

Smith er einn allra frægasti leikari Hollywood. Hann sló fyrst í gegn í sjónvarpsþáttunum The Fresh Prince of Bel-Air og varð síðan stjarna eftir leik sinn í hasarmyndunum Independence Day og Men in Black.

Má geta þess einnig að Smith hefur áður unnið með Aronofsky að sjónvarpsþáttunum One Strange Rock frá 2018.

Aronofsky er ekki ókunnugur Íslandi en hann leikstýrði kvikmyndinni Noah, sem var tekin upp að hluta hér á landi. Þá hefur hann látið sig umhverfisvernd á Íslandi varða og stutt Náttúruverndarsamtök Íslands. Hann er þekktur fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndum á borð við Pi, Requiem for a Dream, The Fountain, Black Swan og mother!

Ekki er enn búið að gefa upp hvenær Welcome to Earth lendir á Disney+.