Ben Stiller í háum hæðum

Nýjasta kvikmynd Ben Stiller, The Secret Life of Walter Mitty verður frumsýnd þann 26. desember næstkomandi.

Nýtt plakat hefur verið gert opinbert og má þar sjá Ben Stiller hlaupandi í háum hæðum yfir New York. Plakatið endurspeglar draumóra persónunar Walter Mitty, sem er ósköp venjulegur maður með mikið hugmyndaflug. Einnig gefur hún til kynna mann sem er á hraðri leið úr stórborginni. Mikil spenna er fyrir kvikmyndinni hér á landi, og má rekja það til þess að myndin var að hluta til tekin á Íslandi. Nú er bara að bíða og vona að Íslandi bregði fyrir á næsta plakati.

walter

The Secret Life of Walter Mitty er leikstýrt af Ben Stiller sem einnig skrifar handritið og leikur aðalhlutverkið. Myndin er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1947 með Danny Kaye í aðalhlutverkinu.

Walter í túlkun Stiller er uppburðarlítil og hikandi manngerð, sem starfar sem myndstjóri hjá tímaritinu Life í New York. Hann lifir lífi sínu í gegnum dagdrauma. Þegar ein af myndunum sem hann er að vinna með týnist, þá þarf hann að fara í alvöru ævintýraferð og kemst að því úr hverju hann er í raun gerður, og hverju hann getur áorkað.