Ráðvilltur Ben Stiller á Íslandi

Fyrsta myndin hefur verið birt úr „Íslandsmynd“ Ben Stiller, The Secret Life of Walter Mitty, en að sjálfsögðu er Ísland þar í aðalhlutverki, rétt eins og í mynd Tom Cruise Oblivion, enda var hluti myndar Stiller tekinn upp hér á landi á síðasta ári.

Á myndinni stendur Stiller ráðvilltur utan vegar á Íslandi með hjólabretti í annarri hendi og poka í hinni.

Kvikmyndaráðstefnan CinemaCon stendur nú yfir í Las Vegas í Bandaríkjunum og kynna þar kvikmyndaverin væntanlegar myndir sínar. 20th Century Fox mun birta sýnishorn úr The Secret Life of Mitty síðar í þessari viku, en byrjar á því að birta þessa mynd hér að ofan, sem birtist fyrst í LA Times.

The Secret Life of Walter Mitty er leikstýrt af Ben Stiller sem einnig skrifar handritið og leikur aðalhlutverkið. Myndin er endurgerð á samnefndri mynd frá árinu 1947 með Danny Kaye í aðalhlutverkinu.

Walter í túlkun Stiller er uppburðarlítil og hikandi manngerð, sem starfar sem myndstjóri hjá tímariti í New York. Hann lifir lífi sínu í gegnum dagdrauma. Þegar ein af myndunum sem hann er að vinna með týnist, þá þarf hann að fara í alvöru ævintýraferð og kemst að því úr hverju hann er í raun gerður, og hverju hann getur áorkað.

Auk Stiller leika í myndinni þau Kristen Wiig, Adam Scott, Patton Oswalt og Shirley MacLaine.

Fleiri ljósmyndir úr myndinni eru síðan væntanlegar síðar í vikunni eins og fyrr sagði.

Myndin er væntanleg í bíó um næstu jól.