Opna dyrnar að undirheimunum

Ný stikla er komin út fyrir nýja íslenska kvikmynd sem frumsýnd verður í SAMbíóunum 18. febrúar nk. Myndin heitir Harmur og segir frá hinum tvítuga Oliver sem býr ásamt móður sinni og yngri bróður í niðurníddu íbúðahverfi í Reykjavík. Samband hans við móður sína hefur farið batnandi upp á síðkastið en skyndilega breytist allt þegar móður hans hrakar, og ástandið í fjölskyldunni versnar.

Halldór Ísak Ólafsson einn þriggja framleiðenda myndarinnar, ásamt leikstjórunum og æskuvinunum Ásgeiri Sigurðssyni og Antoni Karli Kristensen, segir í samtali við Kvikmyndir.is að aðstandendur hafi viljað fjalla um íslensk ungmenni sem fara inn um dyrnar að undirheimunum, án þess að vera harðir glæponar. „Okkur fannst þetta mjög áhugaverð hugmynd og við fjöllum um fíkn og fjölskyldutengsl m.a.,“ segir Halldór.

Halldór ísak

Spurður um líkindi við aðra íslenska kvikmynd, Lof mér að falla, segir Halldór að þeir hafi séð þá mynd og skoðað hvað virkaði vel í henni. Það hafi þeir nýtt sér en komi með eigin sjónarhorn á þennan harða heim.

Ungt fólk vill nýtt og ferskt

Um markhóp kvikmyndarinnar segir Halldór að myndin sé að sjálfsögðu hugsuð fyrir sem flesta, en aðal markhópurinn sé ungt fólk. „Við höldum að unga fólkið hafi sérstakan áhuga á að sjá eitthvað nýtt og ferskt í íslenskri kvikmyndagerð.“

Aðspurður segir Halldór að myndin hafi kostað um tvær milljónir króna og sé alfarið fjármögnuð af þeim þremenningum. Þeir hafi ekki sótt um neina styrki til framleiðslunnar.

„Við gátum reddað okkur með húsnæði hjá fólki sem við þekkjum og fengum góða aðstoð frá vinum okkar, til dæmis hvað varðar lýsingu og hljóðupptöku.“

Þekktir leikarar

Þekktir leikarar fara með stór hlutverk í myndinni og má þar nefna Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur, Jóel Sæmundsson og Aldísi Amah Hamilton. Þá fer annar leikstjóranna, Ásgeir, með aðalhlutverk.

Þeir Halldór, Ásgeir og Anton eru allir ungir að árum og kvikmyndin er þeirra fyrsta mynd í fullri lengd. Anton er með próf frá New York Film Academy í Los Angeles og Ásgeir leikstýrði þáttunum Bömmer sem sýndir voru á Rúv + sumarið 2020.

Anton og Ásgeir.

Tökur á kvikmyndinni stóðu yfir í tvær vikur í október á síðasta ári og í viku í febrúar á þessu ári.

Tekið upp í 10 manna samkomubanni

Halldór segir að meðal annars hafi verið tekið upp í miðju tíu manna samkomubanni. „Það var talsverð áskorun,“ segir Halldór og brosir en undirbúningur hófst sumarið 2020.

Myndin hefur þegar verið sýnd á Flickers Rhode Island International Film Festival þar sem hún fékk verðlaun fyrir framúrskarandi uppgötvun leikstjóra á ungu hæfileikafólki, Nordic International Film Festival, Toronto Independant Film Festival, Oldenburg Film Festival og Reykjavík international Film Festival, RIFF.

„Myndin hefur fengið góðar viðtökur á þessum hátíðum,“ segir Halldór aðspurður.

Sem fyrr sagði kemur myndin í bíó 18. febrúar nk. en þangað til má kíkja á nýju stikluna sem er birt hér að neðan ásamt plakati: