Vill hafa Sjúgðu mig Nínu óaðgengilega

Óskar Jónasson er einn af mikilvægustu leikstjórum íslensku kvikmyndasögunnar. Hann hefur leikstýrt kvikmyndum eins og Reykjavík Rotterdam (2008), Perlur og svín (1997) og Sódóma Reykjavík (1992). Sú síðastnefnda er án efa í uppáhaldi hjá flestum Íslendingum enda inniheldur hún ógleymanlegar persónur sem halda partýinu gangandi og segja eftirminnilega frasa eins og til dæmis: ,,Dúfnahólar 10!”

Óskar Jónasson leikstjóri.

Það eru þó ekki margir sem kannast við kvikmyndina Sjúgðu mig Nína (1985) sem Óskar gerði þegar hann var í hljómsveitinni Oxsmá sem var upphaflega hluti fjöllistahópsins Oxtor sem var stofnaður árið 1980. Hópurinn gerði að minnsta kosti tvær stuttmyndir á sínum tíma: Oxsmá Plánetuna (1983) og Sjúgðu mig Nína í leikstjórn Óskars.

Trommuleikari hljómsveitarinnar, Kormákur Geirharðsson, fór með aðalhlutverkið í Sjúgðu mig Nínu og handritið var skrifað af hljómsveitinni sjálfri og sá hún einnig um tónlistina. Hún var tekin upp á Super 8 án styrks frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og er aðeins 70 mínútur að lengd. Hún á að gerast um árið 1973 og fjallar um parið Hjört (Kormákur Geirharðsson) og Nínu (Halla Margrét Árnadóttir) sem eyða fé sínu í dóp eftir að hafa gifst sparimerkjagiftingu. Þau lenda í eiturlyfjasalanum vonda sem nær að flækja þau í viðurstyggilegt morðmál og hlutirnir fara í verra fyrir Nínu og Hjört.

Vísar ekki í munnmök

Nafnið á myndinni er afar óvenjulegt og flestir myndu halda að það í vísi í munnmök en það er í raun ekki þannig. Nafnið vitnar til þess þegar Nína rankar við sig eftir að hafa tekið LSD og heyrir mjóróma rödd við hlið sér sem hvetur hana til þess að fá sér smók af hassi.

Sódóma átti að vera framhald

Sódóma Reykjavík átti upprunalega að vera framhald af Sjúgðu mig Nínu en sú hugmynd þróaðist fljótlega í aðrar áttir. Þessar tvær myndir eiga samt nokkuð sameiginlegt og þá sérstaklega í byrjun myndanna beggja. Báðar fjalla um ungan og óreyndan mann sem fer út á skemmtanalífið og verður fyrir reynslu sem breytir honum fyrir lífstíð.

Vinsældir í Regnboganum

Myndin naut mikilla vinsælda í Regnboganum á sínum tíma og var sýnd ásamt Oxsmá Plánetunni. Því miður hefur Sjúgðu mig Nína eiginlega fallið í gleymsku því það er nær ómögulegt að nálgast hana, hún var aldrei sett í almenna myndbandsdreifingu og svo hefur hún verið sýnd afar sjaldan. Hún var sýnd á Stuttmyndadögum í Reykjavík árið 1992 og var seinast sýnd á Gamanmyndahátíðinni á Flateyri haustið 2018. Hún er til á Kvikmyndasafninu en til þess að sjá hana þarf maður að fá leyfi frá framleiðendum hennar. Margir Íslendingar sem hafa ekki séð hana eru afar forvitnir um hana og hafa reynt að nálgast hana en án árangurs. Andrea Björk Andrésdóttir og Steindór Grétar Jónsson, þáttastjórnendur Bíó Tvíó hlaðvarpinu um íslenskar kvikmyndir, hafa margoft beðið um eintak af myndinni en því miður hafa þau ekki ennþá fengið að sjá hana.

Barn síns tíma

Ástæðan fyrir því að hún er svona óaðgengileg er sú að Óskar Jónasson vill hafa hana óaðgengilega. Hann segir hana vera barn síns tíma og að hún sé búin að renna sitt skeið: ,,Þetta var mjög afgerandi og ákveðið tímabil í mínu lífi sem leið síðan undir lok.”

Aðspurður hvort að möguleiki væri á að Sjúgðu mig Nína verði nokkurn tímann aðgengileg sagði Óskar að hann efist um það því hann hafi enga löngun á að sýna hana. ,,Ég hef orðið var við að margir kollegar í kvikmyndabransanum eru svipað þenkjandi; vilja lítið með gömul verk sín að gera – sérstaklega bernskuverk. Sjálfum finnst mér óþægilegt að horfa á allt sem ég hef gert, gamalt og nýtt.”

Harpa Hjartardóttir.