Þetta er í raun hlaðvarpsþáttur í útvarpi

Það getur verið góð skemmtun að hlusta á umræður um kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Einn af þeim þáttum sem í boði eru um þetta efni er á dagskrá útvarpsstöðvarinnar X977 í hádeginu á sunnudögum. Þátturinn heitir Stjörnubíó, og stjórnandinn er Heiðar Sumarliðason, en hann segist í samtali við Kvikmyndir.is hafa ætlað sér að verða kvikmyndagerðarmaður allt frá 10 ára aldri. Örlögin hafi hinsvegar hagað því þannig til að hann endaði í sviðslistanámi í Listaháskólanum.


En hvernig fæddist hugmyndin að Stjörnubíói?

„Ég var að koma reglulega að hitta Frosta og Mána í Harmageddon, að ræða menningu og listir. Svo þegar þeir fóru í sumarfrí saknaði ég þess að ræða þessi mál og byrjaði með hlaðvarpsþáttinn Rauða síld, þar sem ég talaði eingöngu um kvikmyndir og sjónvarp. Það fór svo að þeir spurðu hvort ég vildi ekki bara flytja mig yfir á X-ið. Ég samþykkti það góða boð,“ segir Heiðar.
Hann segir að í raun hafi hann eingöngu þurft að skipta um nafn á þættinum, að öðru leyti hafi hann haldið sínu striki frá Rauðri síld.
Rauð síld er tilvísun í ákveðna tækni sem oft er notuð af handritshöfundum í kvikmyndum þar sem um er að ræða ráðgátu. Fyrirbærið þýðir að áhorfadinn er blekktur eða afvegaleiddur, gjarnan með fölskum eða blekkjandi vísbendingum sem verða til þess að hann dregur ranga ályktun.

Heiðar Sumarliðason fær sér kaffi úr Resarvoir Dogs bolla.


Nýja nafnið á þættinum, Stjörnubíó, er hinsvegar tilvísun í hið sögufræga bíó með sama nafni, sem var staðsett ofarlega á Laugaveginum í Reykjavík, á þeim reit þar sem í dag er bílastæðahús, gegnt magasínverslun Icewear.
„Ég er það gamall að ég man eftir Stjörnubíói og fór þangað margoft, sá þar frábærar myndir eins og The Doors, Philadelphia og Robin Hood: Men in Tights,“ segir Heiðar.

Vill að einhver hlusti


Heiðar er stjórnandi þáttarins sem fyrr sagði, en hann segist fá sömu gestina til sín reglulega, en er þó ávallt með augun opin fyrir nýjum viðmælendum. Hann segir viðtökur við þættinum hafa verið góðar. „Hlustunin á Vísir.is er mjög fín. Það er a.m.k. miklu meiri hlustun á útvarpsþættina en á hlaðvarpsþættina, þó svo formattið sé alveg það sama. Ég hugsaði sem svo að fyrst ég væri að standa í þessu, þá vildi ég að einhver væri að hlusta. Því er mjög gott að vera kominn inn á vettvang með alla þessa vefumferð sem Vísir er með.“

Spurður hvort hann fylgi einhverri forskrift í þáttastjórnuninni, segist hann helst vilja hafa stemmninguna afslappaða. „Persónulega finnst mér þetta hefðbundna gagnrýniform ekki áhugavert. Sagan rakin, svo farið ofan í saumana á því hvernig hver og einn listamaður stóð sig. Ég efast stórlega um að fólk lesi rýnina í heild sinni, heldur skanni bara textann til að finna einhverja lokaniðurstöðu. Í Stjörnubíóþættinum reyni ég að segja jafn lítið og ég kemst upp með um söguna, en reyni frekar að láta myndirnar og þættina vera stökkpall inn í umræðu. Ég reyni að undirbúa mig vel, en nota svo yfirleitt bara brotabrot af því sem ég undirbý. Ég þarf kannski að fara að slaka aðeins á í undirbúningnum,“ segir Heiðar og hlær. „Ég set samt mikla pressu á mig að vera tilbúinn með sem mest efni áður en ég fer í loftið, svo það komi ekki dauður punktur í þetta, en láta svo hlutina gerast í einhverju flæði. Það er skemmtilegast þegar ég og viðmælandinn náum að fara í einhverja óvænta átt sem ekki var fyrirfram ákveðin. Þá verður miðillinn hvað mest lifandi. Þetta er í raun hlaðvarpsþáttur í útvarpi. Ég vil hafa þetta kæruleysislegra en útvarp er vanalega. Það má vel vera að það trufli einhverja, því fólk er vant að útvarp sé formlegra. En hlaðvarpið er framtíðin.“

Áttu eitthvað uppáhalds tímabil í kvikmyndasögunni?

„Nei, ég get nú ekki sagt það, mínar uppáhalds myndir eru mjög ólíkar og frá mismunandi tímabilum. Ég get þó sagt að það er ekki tímabilið sem við lifum á núna. Í dag snýst þetta að miklu leyti um að gera kvikmyndir sem Kínverjar vilja horfa á. Vandamálið varðandi það er að þeir hafa séð svo fáar kvikmyndir um ævina, þar sem þeir hafa haft svo lítinn aðgang að vestrænum kvikmyndum, þangað til núna allra síðustu ár. Og með fullri virðingu fyrir þeim, þá er þeirra kvikmyndasmekkur og -læsi ekki á sama stað og okkar sem höfum verið að fá þetta beint í æð frá fæðingu. Því eru rándýrar og risastórar ævintýra- og hasarmyndir búnar að taka algjörlega yfir. Svo ekki sé talað um allar þessar framhaldsmyndir. Ætli ég sé ekki bara orðinn of gamall til að fá mikið út úr þessum myndum, jafn mikið og þær skemmtu mér þegar ég var yngri. Því tek ég vönduðum myndum, þar sem enginn er með skikkju og í nærbuxum utan um spandex, fagnandi.“

Eru peningar farnir að stjórna of miklu í kvikmyndaheiminum?

„Peningarnir hafa alltaf stjórnað miklu, en það var ávallt töluverður listrænn metnaður innan kvikmyndaveranna að gera vandaðar myndir. En það sem gerðist var að DVD markaðurinn hrundi, og í kjölfarið á því stóðu kvikmyndaverin mjög illa. En þá opnaðist óvænt markaðurinn inn til Kína. Stjórnvöld þar slökuðu á klónni og ný kvikmyndahús skutust upp eins og gorkúlur. Kvikmyndaverin hættu því að gera dramamyndir fyrir fullorðna og fóru að gera kvikmyndir til að moka inn peningum í Kína, því sá markaður er orðinn jafn stór þeim bandaríska. Áður var það þannig að ef kvikmynd gekk illa í bíó, gat hún mögulega plummað sig vel á VHS, og síðar DVD og komið út í plús.“

Las öll kvikmyndatímarit


Blaðamaður spyr Heiðar um hans forsögu og hvernig áhuginn á kvikmyndum er til kominn. „Ég er leikhúsmenntaður. Ég hef verið að skrifa fyrir leikhús og leikstýra, og verk eftir mig hafa verið sýnd í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og í Útvarpsleikhúsinu. Annars ætlaði ég alltaf alveg frá 10 ára aldri að verða kvikmyndagerðarmaður, ég sá allar myndir sem komu í bíó, las öll þau kvikmyndatímarit sem bárust til landsins og hugsaði eiginlega ekki um annað. En einhvernveginn datt ég inn í leikhúsnám í Listaháskólanum árið 2005. Það var óvænt, því það var að byrja ný námsbraut, sviðshöfundabraut, og ég var í fyrsta bekknum sem útskrifaðist. Ég fór svo til Bretlands í mastersnám í leikstjórn. Mig hefur samt alltaf langað að skrifa fyrir bíó, og hef fengið handritastyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, en aldrei náð að sinna því nógu vel. Það hafa alltaf einhvern leikhúsverkefni dottið inn. Svo þegar maður loks kemst í að sinna því sem maður hefur verið styrktur fyrir hefur áhuginn á verkefninu e.t.v. dofnað. Það eru svo litlir peningar í þessu að maður verður bara að taka þeim verkefnum sem bjóðast. Maður lifir ekki lengi á einhverjum 400 þúsund kalli.“

Spurður að því hvort að honum langi að gera kvikmynd einn daginn, segir hann að sjónvarpið heilli hann meira þessa dagana. „Fólk er rosalega mikið hætt að fara í bíó. Aðsókn að íslenskum myndum er í algjöru lágmarki, nema það sé mynd byggð á þekktri skáldsögu, eða hún sé eftir Baltasar Kormák.

Sjónvarpið er framtíðin

„Ég held að sjónvarpið sé framtíðin. Í Bandaríkjunum sést það vel. Þar er fólk með listrænan metnað, höfundar og aðrir, að flytja sig yfir í sjónvarpið, því það fær ekki tækifæri í bíó. Sjónvarpið er miðillinn sem nær til flestra og er miðillinn þar sem höfundurinn er kóngur, á meðan kvikmyndin er meiri leikstjóramiðill.“

Eru kvikmyndahúsin að deyja út?

„Nei, ég held ekki. Ég er sjálfur mjög áhugasamur um að fara í bíó og sjá góðar kvikmyndir. Mér finnst ekki gaman að sjá drama kvikmyndir heima hjá mér til dæmis. Þar missi ég fókusinn. Í bíói er ekkert sem truflar þó að myndin byrji hægt. Hvað sjónvarpið varðar þá er það þannig að ef sjónvarpsþáttur grípur mig ekki strax, þá nenni ég ekki að horfa. Í bíó næ ég að slaka betur á og hef meiri þolinmæði. Þetta er bara einkenni þessa hraða heims sem við búum í. Ég hafði miklu meiri þolinmæði áður fyrr varðandi áhorf heimavið.“
Og hvað gamanþætti varðar segist hann geta séð á 10 sekúndum hvort að þáttur í sjónvarpi sé þess virði að horfa á. „Þú sérð það bara á fyrsta brandaranum á hvað standard þátturinn er. Og ef það er dósahlátur, þá slekk ég undir eins.“

En hvað finnst honum um íslenskar kvikmyndir í dag?

„Þetta er bara brokkgengt eins listin er allsstaðar. Það koma reglulega flottar myndir sem draga mig í bíó. Við áttum frábært tímabil með Lof mér að falla, Undir trénu og Andið eðlilega. Við höfum verið heldur upptekin af því að gera myndir um miðaldra íslenska karlmenn í krísu. Við mættum fara að slaka aðeins á í því og e.t.v. hvíla fjósa- og fjárhúsamyndirnar.“

Heiðar bætir við að lokum að Kvikmyndamiðstöð mætti tvímælalaust leggja meiri áherslu á fjármögnun á efni fyrir sjónvarp, enda sé það, að hans mati, framtíðin. „Jón Gnarr hefur mikið talað fyrir þessu. Við sem erum að standa í því að skrifa og framleiða leikið efni viljum ná til sem flestra og áhorfendurnir eru miklu meira heima í sófa í dag en á árum áður. Það þarf mun meira til að fá fólk til að fara út úr húsi með allt þetta úrval sem við höfum í dag á öllum þessum streymiveitum. Við ættum að vera að setja miklu meiri fjármuni í framleiðslu sjónvarpsefnis. Og ekki gleyma því að gera íslenskt efni fyrir íslenska áhorfendur og vera ekki að eltast við að hrífa einhverja útlendinga. Þetta er kannski einhver útópísk sýn sem ég hef varðandi þetta, en maður má láta sig dreyma.“

Hlustaðu á nýjasta þáttinn af Stjörnubíói hér fyrir neðan: