Lengi verið aðdáandi Ben Stiller – viðtal

Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson, sem kemur fram í eftirminnilegu hlutverki í Ben Stiller kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty sem frumsýnd verður hér á landi nú á föstudaginn næsta, þann 3. janúar,  segist í samtali við kvikmyndir.is lengi hafa verið aðdáandi Ben Stiller, og nefnir sem dæmi myndirnar Zoolander og Meet the Parents, sem tvær af hans uppáhaldsmyndum með leikstjóranum.

Í samtalinu segir Ólafur Darri einnig að hann hafi upphaflega komið til greina í þrjú hlutverk í myndinni, en að lokum fengið það hlutverk af þeim þremur sem honum leist best á.

olafur darri walter

Hvernig fékkstu hlutverk í þessari mynd?

Ég fór tvisvar í prufu, fyrst með Casting Director myndarinnar og svo með framleiðendum og Ben Stiller. Þetta tók þrjá mánuði eða svo.

Hvaða þýðingu hefur það fyrir íslenska leikara að koma við sögu í mynd eins og þessari?

Það skiptir miklu máli fyrir leikara eins og mig, sem er að reyna að koma sér á framfæri í Bandaríkjunum. Það hjálpar í hvert skipti sem einhver tekur sénsinn á að vinna með þér. Þetta er líka frekar stór mynd, 90 milljónir dollara, svo vonandi mætir fólk til að horfa. Svo skemmir ekki fyrir ef vel tekst til.

Gastu valið úr einhverjum hlutverkum, eða var þetta hlutverkið sem leikstjórinn vildi fá þig sérstaklega í?

Upphaflega var verið að prófa mig í þrjú hlutverk en hlutverkið sem ég fékk var klárlega hlutverkið sem mig langaði mest til að leika.

Hvað þarf til að slá í gegn í Hollywood? Þarf maður að flytja þangað til dæmis? Hefurðu hugleitt það?

Já, ég held að ef menn hafi það að markmiði að vinna í Hollywood og „slá í gegn“ þar, þá þurfi menn líklega að flytja þangað. Ég hef það ekki á prjónunum að óbreyttu að flytja þangað fyrir utan að ef maður skyldi fá vinnu L.A., þá gæti maður þurft að búa þar í einhvern tíma. Á Íslandi líður mér hins vegar best og eins og það getur verið gott að fara héðan þá er alltaf jafn gott að koma heim. Mér hefur fundist gaman að fá tækifæri til að vinna í útlöndum, fyrst með Vesturporti út um allan heim og nú í Bandaríkjunum. Vonandi halda þau tækifæri áfram að koma.

walter mitty

Sérðu þig fyrir þér áfram sem bæði sviðsleikara og kvikmyndaleikara? Hvort finnst þér skemmtilegra, eða meira krefjandi – áhugaverðara ….?

Mig langar bara fyrst og fremst að vinna við verkefni sem vekja áhuga minn. Þau mega koma hvort sem er úr leikhúsi eða kvikmyndum. Að fá að vinna með góðu fólki að góðum sögum, það er klárlega málið. Svo væri líka fínt að fá smá borgað, takk.

Kynntistu eitthvað stóru stjörnunum í myndinni, svo sem Stiller sjálfum og Kristen Wiig ofl.?

Ég hef verið í smá sambandi við Ben enda var samstarf okkar einkar skemmtilegt. Hann er góð fyrirmynd, hörkuduglegur og kröfuharður.

Er þetta vel borgað djobb að leika í svona mynd?

Miðað við það að vinna í sjoppu, já þá er þetta vel borgað. En maður þarf að vera orðinn þekktur til að uppskera einhverjar alvöru upphæðir. En ég kvarta ekki þó ég sé langt frá því að vera ríkur. Það má heldur ekki gleyma því að einnig er verið að borga mönnum fyrir afnot af andliti og rödd svo lengi sem myndin hefur líftíma. Það er því eðlilegt að tímakaupið sé hátt.

Áttu þér draumaleikstjóra að vinna með í kvikmyndum ( erlenda / Hollwood eða annað )?

Það eru margir sem ég væri til í að vinna með. Annars reynir maður að hugsa fyrst og fremst um þá sögu sem á að segja og hvort maður geti lagt eitthvað að mörkum til að hún verði betri.

Þegar þú ert að leita að hlutverkum í Hollywood, ertu þá að markaðssetja þig sem ákveðna týpu – karakter – sbr. svona týpu eins og þú leikur í Walter Mitty ?

Ég hugsa ekki um slíkt. Ég fer í prufur og reyni að gera eins vel og ég get. Stundum eiga hlutverkin vel við mig og ég hef á tilfinningunni að ég gæti gert vel. Stundum er þetta ekki þannig. Það hefur virkað ágætlega hingað til …

Hvernig var að vinna með Stiller – sem leikara annarsvegar og sem leikstjóra hinsvegar?

Það var ofsalega gaman að vinna með honum. Ég hef reyndar verið aðdáandi lengi, Zoolander og Meet The Parents eru einhverjar skemmtilegustu myndir sem ég veit um. En hér er Ben að sigla á önnur mið. Það er örugglega ekkert grín að framleiða, leikstýra og leika aðalhlutverkið í 90 milljóna dollara mynd, ég tala nú ekki um þar sem hann er í mynd allan tímann. En mér fannst Ben leysa það einkar vel. Hann er rosalega vel undirbúinn og veit hvað hann vill. Hann er kröfuharður leikstjóri og ekki síst við sjálfan sig. En á sama tíma fannst mér hann eiga auðvelt með að taka tíma, spinna og vera opinn fyrir því sem kom. Að leika á móti honum var náttúrulega frekar óraunveruleg reynsla, sérstaklega til að byrja með en svo var þetta bara Ben, mótleikarinn sem mann langaði til að leika við. Þetta var ofboðslega skemmtilegt og á margan hátt ógleymanleg reynsla…

Hlakkarðu til frumsýningarinnar á föstudag, verður eitthvað íslensk frumsýningarpartý þar sem það er svo mikið „íslenskt“ í þessari mynd?

Ég hlakka fyrst og fremst til að heyra í Íslendingum hvað þeim finnst um myndina. Þetta er risastór landkynning. Fjölmargir Íslendingar voru í upptökuteymi myndarinnar, þarna eru fjórir íslenskir leikarar sem allir fá að leika með Ben Stiller og landið okkar enn og aftur að koma manni í opna skjöldu í mikilfengleik sínum. Við sem stöndum að myndinni erum búin að taka forskot á sæluna, sjá myndina og skála fyrir árangrinum. Ég vona að Íslendingum langi að gera slíkt hið sama þegar þeir sjá myndina.

Við þökkum Ólafi Darra kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara spurningum okkar á kvikmyndir.is og hvetjum alla til drífa sig í bíó um helgina og sjá myndina.

Hér fyrir neðan má taka smá forskot á sæluna og sjá Ólaf í hlutverki sínu í myndinni.