Undirliggjandi hryllingur

„Myndina mætti kannski flokka í ákveðna hefð nýlegra íslenskra mynda, sem gerast í afskekktum sveitum eða smáþorpum, en snúa upp á hefðina með nýju og torkennilegu bragði í súpuna,“ segir Ásgeir H. Ingólfsson um Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson.

Í umsögn Ásgeirs, sem má finna á vef RÚV, segir meðal annars:

„Við sjáum óttaslegnar kindur að bíða síns eigin græna riddara, við sjáum óttann í augum þeirra á meðan jólaklukkurnar hringja inn jólin og jólalögin taka við, þetta er blíð og um leið óhugnanleg sena. En við sjáum samt ekkert óhugnanlegt gerast. Þess í stað koma bóndahjón nokkur inn í fjárhúsið og taka á móti nýfæddu lambi. Ærin virðist vissulega í uppnámi, en að öðru leyti virðist allt með feldu.

Enda er Dýrið alls ekki hrollvekja, þótt sumir hafi kallað hana það. Hér eru hrollvekjuminni til staðar, sannarlega – en þau eru það fá og lágstemmd að það eru í mesta lagi eitt-tvö atriði í myndinni þar sem viðkvæmir áhorfendur þurfa kannski að loka augunum.

En þótt hryllingurinn sé mest undirliggjandi þá er hið óvenjulega og óræða alltumlykjandi. Bóndahjónin bregðast nefnilega óvenjulega við sauðburðinum; þau taka gimbrið litla í fóstur og ala upp sem sína eigin dóttur.

Ástæðurnar eru framan af óræðar – hjónin eru allavega barnlaus og eiginkonan heitir María, og þið þekkið öll söguna um Maríu og fjárhúsið á jólanótt – en þessi saga endar ekki alveg eins. Enda heitir eiginmaðurinn hérna Ingvar en ekki Jósep og dóttirin heitir Ada, sem þýðir hin fyrsta dóttir í afrískum málum. Ada er líka tékkneskt heiti myndarinnar – þar er undirtitillinn „íslensk ballaða,“ en víðast hvar heitir myndin einfaldlega Lamb…“

Dýrið er frumsýnd á föstudaginn, 24. september.