Verður Vin Diesel næsti Tortímandi?

Leikstjórinn Justin Lin vinnur nú óðum við að kynna næstu mynd sína, Fast Five, sem er (eins og nafnið gefur til kynna) fimmta myndin í Fast & Furious kvikmyndabálknum. Fyrir stuttu var Lin orðaður við næstu Terminator mynd, sem vill svo til að yrði sú fimmta í þeirri seríu.

Á nýlegum blaðamannfundi staðfesti Lin að hann kæmi að gerð næstu Terminator mynd en bætti við að Vin Diesel, sem fer með aðalhlutverkið í Fast Five, kæmi til greina í titilhlutverkið. „Við höfum talað mikið saman um Terminator-söguna. Hann er frábær manneskja sem og leikari. Ég hafði mjög gaman af því að vinna með honum, maður veit aldrei hvað gerist.“

Auk Diesel fara þeir Paul Walker og Dwayne ‘The Rock’ Johnson með hlutverk í Fast Five, sem frumsýnd verður 6. maí hérlendis.