Trúðahrollvekjan It að slá öll met í Bandaríkjunum

Hrollvekjan IT, sem er ný í bíó hér á Íslandi, og gerð er eftir sögu Stephen King, er að slá öll met í miðasölunni í Bandaríkjunum, sem þýðir að bíógestir gætu þurft að búa sig undir að sjá meira af trúðnum Pennywise, enda er myndin aðeins gerð upp úr fyrri hluta bókarinnar. Velgengni í bíó þýðir að seinni hlutinn verður nær örugglega kvikmyndaður:

Mögulega láta framleiðendur ekki bara þar við sitja, og halda áfram að gera myndir upp úr efninu, eins og gjarnan er gert í Hollywood. Það á þó eftir að koma í ljós.

It kostaði 35 milljónir bandaríkjadala og á fyrsta degi í sýningum eru áætlaðar tekjur myndarinnar í Bandaríkjunum tæpar 50 milljónir dala, og margir spá því nú að myndin fari yfir hið víðfræga 100 milljón dollara mark yfir alla frumsýningarhelgina.

Ef þessar tölur verða staðfestar, þá er um að ræða tekjuhæstu hrollvekju allra tíma á fyrsta degi í sýningum, og ef fer sem horfir verður myndin tekjuhæsta hrollvekja á frumsýningarhelgi.  Núverandi methafi er annaðhvort Hannibal frá árinu 2001, með 58 milljónir dala í tekjur, eða Paranormal Activity 3 frá árinu 2011, með 52,5 milljónir dala, en spurningin er aðallega um skilgreininguna, hvort þær teljast sem hrollvekjur eða spennutryllar.

It yrði einnig tekjuhæsta bannaða mynd í sögunni á frumsýningardegi, en Deadpool á það met sem stendur.

It hefur einnig fengið góð viðbrögð almennings og gagnrýnenda, og er með 88% á Rotten Tomatoes.