King trúðahrollurinn It – hryllilega góð fyrstu viðbrögð

Stiklan úr IT, kvikmynd sem gerð er eftir þekktri hrollvekju Stephen King, er byrjuð að birtast í bíó hér á landi á undan sýningum á myndum sem nú eru í bíó. Til eru sjónvarpsþættir gerðir eftir sögunni, en oft er það þannig að endurgerðir og endurræsingar ná ekki sömu gæðum og vinsældum og frumgerðin. Miðað við þær fregnir sem nú berast utan úr heimi, er útlit fyrir að þessi nýja mynd muni slá eldra myndefni sem gert hefur verið upp úr skáldsögunni, við.

Eins og sagt hefur verið frá hér þá varð metáhorf á fyrsta degi eftir að stiklan var frumsýnd, og nú eru gagnrýnendur og kvikmyndaáhugamenn sem búnir eru að sjá myndina, byrjaðir að setja færslur um inn á samfélagsmiðla.

„Myndin er hrollvekjandi, blóðug, ótrúlega fyndin, mjög rómantisk, og ein af uppáhaldsmyndum mínum á þessu ári,“ skrifaði Erik Davis á kvikmyndavefnum Fandango.

Anthony Breznican á Entertainment Weekly var einnig jákvæður: „Ég held að þetta sé ein af bestu kvikmyndagerðum eftir sögu Stephen King sem nokkru sinni hefur verið gerð.“

Kíktu á nokkur viðbrögð hér fyrir neðan:

Nýlega var opinberað að myndin væri 135 mínútur að lengd. Eftir að fyrsta stiklan var frumsýnd urðu trúðar um allan heim bálreiðir, enda þótti þeim myndin sýna trúða í slæmu ljósi. 

King sjálfur lofaði myndina eftir að hann hafði séð snemmbúna gerð hennar og sagði á Twitter að „Hún færi fram úr vonum hans.“

Önnur mynd byggð á sögu King, The Dark Tower, er nú í bíó, en hún hefur ekki fengið eins góðar viðtökur gagnrýnenda.

Helstu leikarar í It eru eru Bill Skarsgård, sem leikur trúðinn Pennywise, og Jaeden Lieberher. Þá leika Jack Dylan Grazer og Finn Wolfhard úr sjónvarpsþáttunum Stranger Things í myndinni.

Rocky Horror leikarinn Tim Curry lék Pennywise í stuttseríu í sjónvarpi árið 1990. It kemur í bíó hér á Íslandi 8. september.