Top Gun 2 að veruleika?

Margir hafa beðið án árangurs ár eftir ár eftir ár eftir að sjá framhald af orrustuflugmanna – töffaramyndinni Top Gun með Tom Cruise í aðalhlutverkinu, en í myndinni lék einnig fjöldi annarra þekktra leikara.

CinemaBlend vefsíðan greinir frá því að ofurframleiðandinn Jerry Bruckheimer hafi sagt við MTV sjónvarpsstöðina að í gegnum tíðina hafi oft verið rætt um að gera framhald af myndinni, og Tom Cruise hafi meðal annars tekið þátt í þeim viðræðum á einhverjum tímapunkti, en aldrei orðið af því.

Jerry segir að núna hinsvegar, sé kominn upp aukinn áhugi á framhaldi. „Við höfum hent á milli okkar hugmyndum, því það sem gerir þetta svo spennandi er að flugheimurinn hefur breyst svo mikið síðan við gerðum myndina. Þannig að við verðum að finna bestu leiðirnar hvernig á að púsla þessu saman við persónu Cruise, Maverick,“ segir Bruckheimer.

Þetta er auðvitað á hugmyndastigi ennþá en menn geta amk. ornað sér við að skoða sýnishornið hér að neðan úr Top Gun.