Tom Cruise með hlutverk í Top Gun 2?

Kvikmyndaleikaranum Tom Cruise hefur verið boðið hlutverk í Top Gun 2 samkvæmt heimildum Hollywood Reporter fréttaveitunnar, en Cruise sló einmitt í gegn sem flugmaðurinn Maverick í upprunalegu Top Gun myndinni.

Við sögðum frá því í júní sl. að þreifingar væru hafnar um nýja Top Gun mynd, en nú hefur það verið staðfest að Paramount Pictures hafi gert ofurframleiðandanum Jerry Bruckheimer og leikstjóranum Tony Scott tilboð um að gera umrætt framhald af myndinni, eftir handriti Christopher McQuirre, að því er Vulture blogg New York Magazine greinir frá.

Tom Cruise er sagður líklegur til að koma fram í myndinni sem Maverick, persóna hans úr fyrri myndinni, en hluverkið verði minna en áður voru hugmyndir um, og segja heimildir að Tom Cruise sé sáttur við það.

Það er David Ellison, 27 ára sonur stofnanda Oracle hugbúnaðarrisans, Larry Ellison, sem sjálfur er lærður flugmaður, sem er prímus mótor í verkefninu, að sögn Vulture.
Ellison safnaði nýlega 350 milljónum Bandaríkjadala til að setja í framleiðslu á bíómyndum, og samdi við Paramount um að fá að skoða fyrstur verkefni sem þeir eru með á borðinu.

Fyrsta verkefnið sem Ellison og Paramount ætla að gera saman er Mission Impossible 4, með Tom Cruise að sjálfsögðu í aðalhlutverkinu.

Top Gun 2 verður að öllum líkindum nokkuð frábrugðin Top Gun 1 þar sem herflugiðnaðurinn hefur breyst talsvert. Á tímum Top Gun 1 var meiri áhersla á bardaga orrustuþotna í lofti, en í dag snýst þetta meira um að flugmenn fái kennslu í að sleppa hátæknivæddum sprengjum á lítil og afmörkuð svæði á jörðu niðri.