Engin Top Gun 2 nema Maverick og Tom Cruise verði aðal

Aðdáendur Tom Cruise og orrustuflugmannamyndarinnar Top Gun, sem átti stóran þátt í að gera Cruise að þeirri stórstjörnu sem hann er, geta nú tekið gleði sína að nýju, en svo virðist sem að Cruise, og persóna hans, orrustuflugmaðurinn Maverick, verði í lykilhlutverki í Top Gun 2, sem nú er í undirbúningi undir styrkri stjörn stjörnuframleiðandans Jerry Bruckheimer.
Áður hafði verið sagt, eða gefið í skyn, að Maverick verði aðeins í litlu hlutverki í myndinni, en eins og áður sagði er það ekki allskostar nákvæmt.

JoBlo vefsíðan segir frá því að Tony Scott leikstjóri Top Gun, hafi tjáð sig í vikunni um verkefnið og staðfest þar áhuga sinn á að snúa aftur í heim orrustuflugvéla. Við sama tilefni lét hann í ljós hugsanlegt sögusvið, en það yrði þá sá veruleiki sem er í dag í þessum heimi þar sem ómannaðar flugvélar hafa tekið að mörgu leyti við hlutverki orrustuflugmannanna, og segja frá því hvernig það hafi breytt aðgerðum og verkefnum flughersins.

Þetta sögusvið varð einmitt til þess að menn fóru að efast um hlut Mavericks í þessu öllu saman en nú hefur handritshöfundurinn sjálfur, Christopher McQuirre, sagt svo ekki verður um villst að Maverick og Tom Cruise verða í aðalhlutverki í myndinni. „Það verður engin Top Gun 2 nema með Maverick í aðalhlutverkinu.“

Svo mörg voru þau orð.