Tom Cruise til Íslands með Oblivion?

Fréttablaðið segir frá því í dag að talsverðar líkur séu á að kvikmyndin Oblivion með Tom Cruise í aðalhlutverki verði tekin upp hér á landi á næsta ári. „Þetta hefur verið til skoðunar í dágóðan tíma, það stóð til að myndin yrði gerð hér í sumar,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, einn aðaleigenda framleiðslufyrirtækisins True North í samtali við Fréttablaðið.

Í blaðinu segir einnig að leikstjórinn Joseph Kosinski, sem síðast gerði Tron: Legacy með Jeff Bridges, hafi sýnt landinu áhuga. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru leikstjórinn og framleiðandinn staddir hér í sumar til að skoða hentuga tökustaði í fylgd starfsmanna True North.

„Oblivion segir frá hermanni sem sendur er til fjarlægrar plánetu til að eyða óvinveittum geimverum. Óvæntur ferðalangur setur hins vegar strik í reikninginn. Samkvæmt kvikmyndavefmiðlum vestanhafs stendur nú yfir leit að leikkonu fyrir myndina og eru þær Olivia Wilde, Olga Kurylenko og Noomi Rapace sagðar líklegastar til að hreppa hnossið, en Rapace var auðvitað stödd hér á landi fyrir skemmstu til að leika í kvikmyndinni Prometheus,“ segir í Fréttablaðinu.