Stallone fer í fangelsi – Schwarzenegger slæðist með

Næsta verkefni Sylvester Stallone á eftir testósterón sprengjunni The Expendables 2 verður kvikmyndin The Tomb, sem Summit er með í undirbúningi. Myndin hefur enn ekki fengið leikstjóra, en mörg nöfn hafa hringsólað verkefnið. Antoine Fuqua ætlaði einu sinni að gera myndina, og þá átti Bruce Willis að fara með aðalhlutverkið. Eftir að þeir yfirgáfu partíið sýndi Arnold Schwarzenegger verkefninu áhuga, en valdi svo að gera myndina The Stand frekar sem sína endurkomumynd. Þá var röðin komin að Stallone og hefur hann haldist fastur í aðalhlutverkinu.

Myndin mun fjalla um arkitektin Ray Breslin (Stallone) sem sérhæfir sig í hönnun öryggisfangelsa og lærir þess vegna allar mögulegar flóttaaðferðir til að geta fyrirbyggt þær. Að sjálfsögðu gerist myndin ekki á skrifstofunni hans, Breslin er ranglega dæmdur fyrir morð og vistaður í sínu eigin öryggisfangelsi. Hann þarf því að nota hæfileika sína til að ná því ómögulega, að sleppa úr fangelsinu og finna hinn raunverulega sökudólg.

Nú berast þær fréttir að myndin sé að hreyfast áfram, og að enginn annar en fyrrnefndur Arnold Schwarzenegger sé nú í viðræðum um að taka að sér annað hlutverk í myndinni. Ekkert er vitað um það hlutverk að svo stöddu, en víst er að farið hefur vel á með þeim félögum við gerð The Expendables myndanna fyrst þeir eru að íhuga frekari ævintýri. Þannig að eftir áratuga bið eftir samstarfi hasarstjarnanna geta aðdáendur notið þess í löngum spöðum. Hljómar myndin vel, eða er þetta fullmikið af því góða? Ættu þeir kannski að fá Bruce Willis bara með líka, og fara allan hringinn?