Spider-Man kitlar þig í fjórar mínútur

Snemma í júlí fá áhorfendur að kynnast Andrew Garfield sem Peter Parker og sjá hvort leikstjórinn Mark Webb (500 Days of Summer) nái að gera eitthvað nýtt og sniðugt með Spider-Man-endurræsinguna sem Sam Raimi tókst ekki að gera með sínum myndum. Það kæmi ekkert á óvart ef fólki er farið að finnast of mikið vera sýnt úr myndinni, en það er svosem aldrei óeðlilegt.

Ef þú ert ekki þegar byrjaður að hundsa nýjustu stiklurnar þá ætti þessi fjögurra mínútna súper-stikla örugglega að hitta í mark hjá þér, og kannski auka trú þína á myndinni. Þetta sýnishorn er reyndar voða svipað því sem við höfum verið að sjá undanfarið nema búið er að bæta við ansi góðu broti á undan sem sýnir Lóa í rétta hetjugírnum.

Ef Garfield er ekki enn búinn að sannfæra þig um að hann geti hugsanlega komið miklu betur út sem titilkarakterinn heldur en Tobey Maguire, þá myndi ég ekkert vera að flýta mér að sjá þessa mynd þegar hún kemur.

Með önnur hlutverk fara þau Emma Stone, Denis Leary, Martin Sheen, Rhys Ifans og Sally Field.

Undirritaður er allavega orðinn ansi spenntur fyrir þessu, en ef það er eitthvað sem Sam Raimi-myndirnar munu ábyggilega alltaf hafa fram yfir þessa nýju seríu, þá er það J.K. Simmons. Það verður a.m.k. ótrúlega erfitt að finna einhvern betri í þá rullu, ef hún lætur sjá sig aftur á næstunni.