Sandler og Aniston saman á ný

Fyrstu ljósmyndir úr nýjustu kvikmynd Adam Sandler og Jennifer Aniston, Murder Mystery, hafa verið birtar, en kvikmyndin er hluti af samningi Sandler við Netflix streymisrisann. Leikstjóri er Kyle Newacheck.

Hjónin eru fín í tauinu. Þau eru grunuð um morð.

Myndin kemur á Netflix í júní nk. en ekki er búið að gefa út nákvæma dagsetningu.

Myndin er önnur mynd þeirra Aniston og Sandler saman, en áður léku þau saman í Just Go With It frá 2011, en sú mynd fjallaði um lýtalækni sem sannfærir aðstoðarkonu sína um að þykjast vera eiginkona sín sem hann er um það bil að fara að skilja við, til að hylma yfir lygi sem hann sagði ungri kærustu sinni.

Sögurþráðurinn er eitthvað á þessa leið: Þegar New York lögga, sem Sandler leikur, fer með eiginkonu sinni, sem Aniston leikur, í frí til Evrópu, þá hitta þau óvænt fjölskyldu í flugvélinni sem býður þeim í fjölskylduveislu á stórri skútu, sem milljarðamæringurinn Malcolm Quince á. Þegar Quince er myrtur, þá eru þau grunuð um verknaðinn.

Aðrir helstu leikarar eru Luke Evans, Gemma Arterton, Luis Gerardo Mendez og Terence Stamp.

Murder Mystery er fimmta mynd Adam Sandler fyrir Netflix, og sú fyrsta í nýjum samstarfssamningi þeirra á milli.

Er maðkur í mysunni?