Ross yfirgefur Hungurleikana

Jæja, nú er það loksins komið á hreint. Undanfarna daga hefur þessi umræða sveiflast mikið til. Fyrst kom fram að leikstjórinn Gary Ross myndi ekki leikstýra myndinni Catching Fire (önnur bókin í Hunger Games-þríleiknum). Síðan breyttist það og svo var aftur sagt að hann væri hættur. Svo leiðrétti einhver það en núna er hann dottinn út fyrir fullt og allt, og voru það ekki framleiðendur sem vísuðu honum burt, heldur ákvað hann sjálfur að yfirgefa seríuna.

Leikstjórinn gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði að honum fyndist tímaramminn á framleiðslu Catching Fire ekki vera nógu þægilegur. Þegar er búið að ákveða það að myndin verður frumsýnd í nóvember á næsta ári og telur Ross að það þurfi meiri tíma til að undirbúa svona stóra mynd, sérstaklega ef hann myndi einnig eiga þátt í handritsgerðinni eins og síðast. Hann bætir því við að framleiðslan á fyrstu Hunger Games-myndinni – sem tók tæplega tvö ár – hafi verið besta upplifun sem hann átti á vinnuferlinum, og er alls ekki útilokað að hann vinni aftur með aðstandendum Lionsgate-stúdíósins í framtíðinni.

En þá hefst leitin að nýjum leikstjóra, og miðað við þennan tímaramma er nokkuð ljóst að nýr verði fundinn á næstu vikum. Catching Fire fer í tökur í haust.

Hvað finnst þér um brottför Ross? Er fínt að breyta aðeins til eins og hefur t.d. verið gert í Harry Potter- eða Twilight-seríunni, eða eru framleiðendur að flýta sér alltof mikið til að henda þessari stórmynd í bíó sem allra fyrst?