Klovn langvinsælust á Íslandi – True Grit á toppinn í USA

Klovn: The Movie fer greinilega vel ofan í Íslendinga, því aðra helgina í röð er hún vinsælust í bíóum hér á landi. Fékk hún tæpa 7.000 áhorfendur í bíó um helgina og er þegar komin í tæpa 20.000 áhorfendur á aðeins rúmlega viku.

Stóð hún af sér ásókn þriggja nýrra mynda, en The Tourist og Gulliver’s Travels urðu í næstu tveimur sætum. Báðar voru þær með rúma 3.000 áhorfendur, og geta verið ánægðar með í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir um áhorfendur. Þriðja nýja myndin, yfirnáttúrulega dramað Hereafter frá Clintaranum sjálfum, varð fimmta með tæpa 1.500 áhorfendur. Á milli þeirra var Megamind, sem er enn að draga að sér áhorfendur eftir tæpan mánuð í bíóum. TRON Legacy virðist halda sér einna best af jólamyndunum þremur, sem raða sér í næstu þrjú sæti, þó enn sé Little Fockers ofar í heildaraðsókn. Áhorfendum á hana fækkaði þó mikið milli helga og er alls ekki víst að hún nái 20.000 manna markinu.

Í það heila stórjókst bíóaðsókn á Íslandi frá því sem hefur verið undanfarnar vikur, enda fátt betra í kuldanum og rokinu en að hlýja sér í skjóli kvikmyndatjaldsins.

Í Bandaríkjunum náði True Grit svo toppsætinu af Little Fockers í þriðju tilraun, en þessi Coen-vestri hefur komið gríðarlega á óvart og mun án efa láta einnig að sér kveða á komandi verðlaunahátíðum. Eðlileg afföll urðu á aðsókn á Little Fockers og TRON Legacy, sem eru báðar að rúlla yfir 150 milljón dollara markið í tekjum á næstu dögum, á meðan nýja mynd helgarinnar, miðaldaævintýrið Season of the Witch með Nicolas Cage í aðalhlutverkinu, náði þriðja sætinu með réttar 10 millur í kassann.

Fyrir utan þetta voru helstu fréttirnar vestra þær að Black Swan heldur áfram að koma á óvart í aðsókn, hélt nánast sömu aðsókn og stökk úr níunda sætinu upp í það fimmta. Hefur hún nú þegar tekið inn 61 milljón dollara, sem er meira en allar myndir Darrens Aronofsky til þessa hafa gert samanlagt.

Um næstu helgi verða gamanmyndin The Dilemma og þrívíddarhasarinn The Green Hornet frumsýndar í Bandaríkjunum (auk þess sem Black Swan verður dreift í enn fleiri kvikmyndahús), en hér á skerinu verða heilar fimm nýjar myndir í boði: teiknimyndin Alfa & Ómega, söngvamyndin Burlesque, gamanmyndin You Again, slægjumyndin Saw 3D og síðast en ekki síst hin rammíslenska Rokland, sem hefur notið ókeypis auglýsingaherferðar frá veðurguðunum undanfarna daga.

Hvað ætlið þið að sjá?

-Erlingur Grétar