Kafli tvö lukkast ágætlega

“Heilt yfir var rýnir sáttur við „It: Chapter Two“. Þó voru nokkrir hlutir tormeltir en mögulega var það sökum þess að bókin er í talsverðu uppáhaldi og breytingarnar óskiljanlegar.“

27 árum eftir atburðina sem áttu sér stað í “It” (2017) snýr ógnin aftur í smábæinn Derry. „Lúserarnir“ Bill (James McAvoy/Jaeden Martell), Richie (Bill Hader/Finn Wolfhard), Ben (Jay Ryan/Jeremy Ray Taylor), Beverly (Jessica Chastain/Sophia Lillis), Eddie (James Ransone/Jack Dylan Grazer), Stan (Andy Bean/Wyatt Oleff) og Mike (Isaiah Mustafa/Chosen Jacobs) sóru þess eið að ef fyrirbærið myndi snúa aftur þá tækju þau saman höndum á ný til að mæta því. Ógnin, sem yfirleitt tekur birtingarmynd trúðsins Pennywise (Bill Skarsgard), var ekki sigruð árið 1989 heldur send snemma í dvala og mætir aftur endurnýjuð.

Mike varð eftir í Derry á meðan allir hinir héldu á brott og komu sér vel upp. Hann fylgist vel með öllu í smábænum og þegar hann verður þess var að Pennywise er snúinn aftur þá hefur hann samband við gömlu félagana. Merkilegast er að öll virðast þau hafa gleymt æsku sinni en eftir símtal frá Mike þá byrja hlutir að rifjast upp. Allir nema einn slá til og Pennywise bíður spenntur eftir endurfundum.

„It“ (nú þekkt sem „It: Chapter One“) sló óvænt í gegn fyrir tveimur árum síðan og því óhjákvæmilegt að framhald myndi dúkka upp. Bókin eftir Stephen King sem myndirnar eru byggðar á spannar tæplega 1.200 blaðsíður og fer hún um víðan völl og myndirnar tvær (samtals um 5 klukkustundir að lengd) neyðast til að sleppa ýmsum hlutum en heilt yfir fylgja henni vel eftir. Miklu púðri er eytt í persónusköpun í bókinni og „It: Chapter Two“ leyfir áhorfendum að kynnast sjömenningunum ágætlega á fullorðinsárum enda losar myndin tæplega þrjár klukkustundir. Hún dregur þó ekkert úr óhugnaðinum sem fylgir Pennywise og fer vel í saumana á því hvernig nærvera „Þess“ hefur litað bæinn og sögu hans.

Kaflaskipt mynd

„It: Chapter Two“ er vel heppnuð í flesta staði; sér í lagi þegar kemur að stökum spennuatriðum. Myndin er frekar kaflaskipt en heilt yfir næst upp ágætis stemning og leikstjórinn Andy Muschietti er vel fær um að skila frá sér stemningsríkum senum og ágætis bregðuatriðum. Það er merkilegt nokk en það er lítið um hægagang þrátt fyrir lengdina og stígandinn er góður. Það helsta sem hægt er að hnýta í snýr að ákveðnum grundvallarþætti sem bókin leggur ríka áherslu á (og mini-serían frá 1990 kom því til skila) en til að fjalla um það verður að koma með nokkra „spoilera“ og það verður í niðurlagi gagnrýninnar.

„It: Chapter Two“ er metnaðarfull mynd og leggur góðan endapunkt á hina ágætis vegferð „lúseranna“ sem hófst í fyrri myndinni. Þá var ferðalag þeirra eins konar endalok sakleysis og kynning á hættum heimsins en þemað hér er málalok í ýmsum myndum hjá hverjum karakter. Þegar þau horfast í augu við hryllinginn sem þau upplifðu og fara að muna eftir öllu saman þá næst ekki sigur gegn hinu illa nema með samheldni, ákveðni og hugrekki. Að þessu leyti kemst boðskapur rithöfundarins Kings fyllilega til skila og í meðförum Muschietti heppnast allt saman ágætlega…að mestu.

Það er vel valið í hlutverkin hér og einnig fá áhorfendur að sjá meira af persónunum sem unglingum en fáein atriði úr æsku þeirra skjóta upp kollinum hér. Þungaviktarstjörnunar McAvoy, Chastain og Hader gera fína hluti en hinir minna þekktu Ryan og Ransone sökkva sér enn betur í hlutverk sín og gera Ben og Eddie að eftirminnilegustu persónunum hér. Skarsgard er líka fínn sem Pennywise en rýnir er enn á því að hann sé eftirbátur Tim Curry þegar kemur að konungi illu trúðanna.

Hugleiðingar fyrir unnendur bókarinnar (og „spoilerar“):

„It“ eftir Stephen King gerir það kristaltært að þegar „lúserarnir“ eru orðnir fullorðnir þá vill Pennywise alls ekki að þeir snúi aftur til Derry. Nokkrar tilviljanir ýta undir þetta; Öll eru þau fjárhagslega vel sett og búin að koma sér vel fyrir; Öll eru þau barnlaus og engir afkomendur munu lifa þau; Öll voru þau nánast búin að gleyma öllu úr æskunni þar til Mike hefur samband við þau en hann var sá eini sem varð eftir í bænum Derry. Allt var þetta fyrir tilstuðlan Pennywise sem vildi alls ekki þurfa að mæta þeim aftur enda voru „lúserarnir“ þeir einu sem næstum því sigruðu hann. En „It: Chapter Two“ virðir þetta að vettugi og snýr þessu á haus þar sem Pennywise bíður spenntur eftir þeim og vill ná fram hefndum. Þá eru áhorfendur settir í þá stöðu að þurfa að sætta sig við að velgengni þeirra allra, barnleysi og gleymska sé tilviljun ein. Frekar erfitt er að kyngja þessari nálgun á efniviðnum.

Önnur pæling varðar hrottann Henry Bowers (Teach Grant). Í bók, mini-seríu og „It: Chapter One“ er þessi mannlega viðurstyggð hreint ótrúlegt sköpunarverk og hann er ekki síður hættulegur „lúserunum“ en Pennywise sjálfur.  Á fullorðins tímabili persónanna snýr hann aftur og veldur miklum usla og skaða á meðan þær undirbúa lokauppgjörið við Pennywise en endurkoma hans þjónar miklum tilgangi í bókinni. Í „It: Chapter Two“ virkar þátttaka hans eins og hálfgerð málamiðlun við unnendur bókarinnar en hann er gjörsamlega tilgangslaus hér og illa farið með persónuna. Það var algjört spurningamerki hvort hann myndi á annað borð snúa aftur þar sem endalok hans virtust nokkuð endanleg í fyrri myndinni og betra hefði verið að sleppa honum alveg hér.