Lítt spennandi djöflanunna

Í stuttu máli er „The Nun“ frekar léleg hryllingsmynd sem stólar á mátt bregðuatriða til að hylja yfir lítinn efnivið, klisjukenndar persónur og andleysi þegar kemur að því að skapa drungalega stemningu.  

-Smá „spoilera“ er að finna í umsögninni- 

Einhver veruleg illska hefur fest rætur í nunnuklaustri í afskekktum hluta í Rúmeníu og ung nunna sér engin önnur ráð en að fremja höfuðsyndina og stökkva út um glugga með snöru um hálsinn til að forðast heljartak illa andans. Við þessi tíðindi grípa kirkjunnar menn til þess ráðs að senda Séra Burke (Demián Bichir) og lærlingsnunnuna Irene (Taissa Farmiga) til þess að heimsækja klaustrið og ganga úr skugga um að staðurinn hvíli enn á helgri grundu.

Þá fyrst fer allt til fjandans.

„The Nun“ er nýjasta innleggið í hinn sístækkandi heim „The Conjuring“ (2013) en sú mynd hefur alið af sér beint framhald og tvær myndir helgaðar dúkkunni Annabelle. Nunnan ógnvænlega (furðulega lík Marilyn Manson) dúkkaði upp í „The Conjuring 2“ (2016) og þótti nógu skelfileg, á góða mátann, til að fá sína eigin upprunasögu.

„The Nun“ er afskaplega þunnur þrettándi og lítið sem hægt er að hrósa annað en tæknilegri vinnslu eins og hljóð- og sjónbrellum sem stöðugt gera árás á áhorfandann án þess þó að vekja neinn óhug að ráði. Uppskriftin að hryllingnum hér eru stutt bregðuatriði sem fá að skjóta upp kollinum við hvert tækifæri og án nokkurrar uppbyggingar og eru svo fyrirsjáanleg að þau verða frekar þreytandi. Vafalaust eru þau atriði liður í að búa til drungalega stemningu en þar sem myndin hefur ekkert annað uppi í erminni tekst ekki vel til. Talsverðum tíma er eytt í langar senur sem sýna dimma ganga og eyðilega sali klaustursins og títt nefnda nunnan er sífellt einhvers staðar í rammanum án þess að gera neitt af sér fyrr en í síðasta þriðjungnum og þá fær áhorfandinn hálfgerða skýringu á tilvist hennar ásamt aldagamalli forsögu um hlið sem leiðir til heljar.

Efniviðurinn í „The Nun“ er engan veginn nógu mikill til að gera heila bíómynd um og betra hefði verið að hafa persónuna í aukahlutverki og, furðulegt nokk, það er raunin hér þar sem hún gerir afskaplega lítið megnið af myndinni. Þá koma til skjalanna persónurnar Burke og Irene (og klaufskur karakter að nafni Frenchie sem á að koma með smá grín til að vega á móti hryllingnum) sem eiga að halda áhorfandanum við efnið en þær eru frekar óspennandi og klisjukenndar. Burke er sérstaklega ófrumlegur en prestar í hryllingsmyndum virðast allir eiga erfitt sálarlíf og a.m.k. eina slæma særingu á samviskunni sem kostaði einhvern lífið. Þessar persónur eiga í dularfullum samskiptum við hinar og þessar nunnur sem ýmist eru annaðhvort þegar dauðar eða bara persónugervingar sem allt í einu hverfa og birtast svo síðar og þar fram eftir götunum. Miðað við máttinn sem hið illa hér býr yfir er furðulegt, þegar til kastanna kemur, hve erfitt það á með að losa sig við þjáðan prest, óreynda nunnu í þjálfun og sveitadurg þegar haft er í huga hve lengi það hefur verið við lýði við góðan orðstír.

Þessi flokkast sem frekar mislukkuð viðbót í hinn annars ágæta Conjuring heim.