Hvar verður Weaver í Avatar 2?

Margir aðdáendur stórmyndarinnar Avatar voru heldur ringlaðir þegar þeir lásu að Sigourney Weaver myndi snúa aftur í næstu mynd. Það er spurning hvort það sé hægt að kalla þetta spoiler þegar um er að ræða mynd sem nánast allir með púls og göngugetu sáu í bíói, en flestir ættu að muna að persóna hennar lét lífið í myndinni.

Fólk var farið að hafa áhyggjur af því að James Cameron myndi endurlífga hana eins og rætt var um að gera við Angelinu Jolie í Wanted 2 (það er ekki þannig lengur). Leikstjórinn var ansi fljótur að svara þessum orðrómum:

„Hafið þið aldrei heyrt um ólínulega frásögn? Það gerist margt á þessari plánetinu áður en hún birtist í fyrri myndinni og áður en Jake er kynntur til sögunnar. Hún kom þangað fyrst fimmtán árum á undan honum.“

Cameron gefur semsagt í skyn að hlutverk hennar eigi helst við um endurlitssenur („flashbacks“) og segir að aðdáendur þurfa aðeins að róa sig áður en þeir slátra ókomna framhaldinu.