Cameron gæti gert Avatar 4

Síðustu 16 ár hefur leikstjórinn James Cameron sett kvikmyndaferilinn í fyrsta gír og einblínt meira á rannsóknir undirdjúpana, enda er kvikmyndabransinn ekki sá eini til að brjóta met í. Það virðist þó sem að kvikmyndaferill Camerons skipti um gír á næstunni, því eins og hann sagði The New York Times nýlega: „Ég er í Avatar-bransanum núna.“

NY Times birti viðtalið við manninn í gær og það leið ekki langt þangað til að hann fór að tala um framtíð Avatar-myndanna, ásamt því að hugsanlega fresta öðru verkefni: „Ég er að gera ‘Avatar 2‘, ‘Avatar 3‘ og kannski ‘Avatar 4‘ og ég ætla ekki að framleiða kvikmyndir annarra. Ég hef ekki áhuga á öðrum handritum. Þetta hljómar allt frekar þröngsýnt, en punkturinn er að með Avatar-landsvæðinu get ég sagt það sem mér finnst nauðsynlegt að segja um stöðu umhverfisins okkar.

Allt sem ég get síðan ekki sagt í gegnum það, segi ég í gegnum heimildarmyndir, sem ég held áfram með. Ég hef gert fimm heimildarmyndir á síðustu tíu árum og mun vonandi gera margar i viðbót. Meira að segja er ég að vinna að einni í augnablikinu sem verður tekin upp í ár og kemur vonandi út á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Þetta ýtir þá verkefninu hans, Battle Angel, ansi langt aftur, því fyrir aðeins nokkrum vikum sagði hann í viðtali við MTV að hann myndi vilja klára Avatar-framhöldin fyrst; hvort að í þeim ummælum sé Avatar 4 innifalin verður bara að koma í ljós.
Hann bætti síðan við að síðasta árið hefur liðið hans verið að vinna að tölvutækninni bakvið Avatar 2, en við fyrstu myndina fóru Cameron og co. frekar blindandi í framleiðsluna, þar sem enginn vissi hvort að svona verkefni gæti tekist.

Seinni myndin mun einblína á vötn plánetunnar Pandoru og var hún upprunalega væntanleg í desember 2014, en samkvæmt framleiðandanum Jon Landau eru enn fjögur ár í hana og kemur hún því ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2016.