Avatar 2 seinkar

Vefmiðillinn The Wrap segir frá því að kvikmyndaverið Fox hafi seinkað frumsýningu vísindaskáldsögunnar Avatar 2 um óákveðinn tíma. Myndin er framhald metsölumyndarinnar Avatar eftir James Cameron frá árinu 2009, og á að vera sú fyrsta af þremur nýjum myndum. Upphaflega átti að frumsýna myndina um jólin 2017.

avatar

Ástæða frestunarinnar er samkvæmt heimildum The Wrap, sú að þrívíddarmyndin verður ekki tilbúin nógu tímanlega.

Kvikmyndaverið sjálft hefur ekki viljað tjá sig um frestunina, en heimildarmenn úr innsta hring hafa staðfest seinkunina við miðilinn.

Engin ný dagsetning ku vera komin, né heldur hefur heyrst hvaða áhrif þetta hefur á Avatar 3 og 4, en frumsýna átti þær um jólin 2018 og 2019.

Um er að ræða aðra seinkun myndarinnar en upphaflega átti að frumsýna Avatar 2 á þessu ári, nánar tiltekið um jólin 2016.

Cameron áætlar að taka myndirnar allar upp samtímis í Nýja Sjálandi.

Leikstjórinn er þekktur fyrir að vera með fullkomnunaráráttu auk þess sem hann er hrifinn af því að nota allra nýjustu tækni hverju sinni, en þetta tvennt getur auðveldlega valdið seinkunum.

Aðalleikarar fyrstu myndarinnar verða með í öllum nýju myndunum, þau Sam Worthington og Zoe Saldana, en talið er að Avatar 2 byrji þar sem sú síðasta endaði, þó að Cameron hafi gefið í skyn að myndin muni að stórum hluta gerast tungli á braut um plánetuna Pandora, og að stórum hluta neðansjávar.

Talið er að það hafi líka áhrif á ákvörðunina að Disney frestaði Star Wars frá vori til jóla 2017, en ekki er alltaf talið vænlegt að láta tvær risamyndir keppa um hylli áhorfenda, og bíósali.

Star Wars: The Force Awakens er núna þriðja tekjuhæsta mynd allra tíma miðað við aðsókn um allan heim, með 1,9 milljarð Bandaríkjadala í tekjur, en þar á undan eru tvær myndir Cameron, Titanic með 2,2 milljarða dala í öðru sætinu og Avatar með 2,8 milljarða dala í fyrsta sætinu.