Hrollvekjuveisla – Nýr þáttur af Bíóbæ

Glænýr þáttur af kvikmyndaþættinum Bíóbæ var frumsýndur á Hringbraut nú í vikunni og hægt er að berja hann augum hér fyrir neðan.

Hrekkjavökuþema í Bíóbæ.

Í þættinum kennir ýmissa grasa en eins og segir í kynningu frá umsjónarmönnum, þeim Gunnari Antoni og Árna Gesti, verða þeir svolítið grimmir við nýju DC myndina Black Adam. Árni Gestur er með ofurhetjuleiða og Gunnar vill meina að stórar senur séu stolnar frá Marvel myndum. Þá koma þeir inn á tenginguna við Shazam og ýmislegt fleira.

Höfðar til nörda

Þeir segja í þættinum í umfjöllun sinni um hrollvekjuna Halloween Ends að leikstjórinn sé í myndinni að höfða til „nördaáhugamannahalloweenheimsins“

Í þættinum fjalla þeir í tilefni af hrekkjavökunni sem er síðar í mánuðinum, um hinar ýmsu hrollvekjur og má því segja að þátturinn sé sannkölluð hrollvekjuveisla.

Meðal mynda sem fjallað er um eru Hereditary, The Exorcist, Hocus Pocus, Beetlejuice, Scream, Candyman, Silence of the Lambs, The Host, Zombieland, Braindead, Meet the Feebles ofl.