Hátt í 900 myndir sendar inn á RIFF – nýtt met í innsendum myndum

Frestur til að senda inn myndir til þátttöku í Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík 2011 rann út mánudaginn 15.júlí, en straumur innsendinga hefur verið stöðugur síðan hátíðin auglýsti fyrst eftir myndum í apríl, samkvæmt frétt frá kvikmyndahátíðinni.
„Talsverður kippur kom í innsendingarnar um miðjan júní og hélst hann nokkurn veginn óslitinn fram á síðasta dag. Þegar yfir lauk höfðu öll áður þekkt met í innsendingum verið slegin og það rækilega; heildarfjöldi innsendra mynda í ár nálgast 900 myndir og þar af eru hátt í 400 myndir í fullri lengd. Endanleg dagskrá RIFF mun telja yfir 100 titla af leiknum myndum, heimildarmyndum, stuttmyndum, teiknimyndum og ýmsu fleira,“ segir í frétt RIFF.

Myndirnar sem koma til með að mynda dagskrá RIFF 2011 koma frá öllum heimshornum, eins og vant er. Nánar verður tilkynnt um dagskrána á næstu vikum. RIFF 2011 fer fram dagana 20. september til 2. október.