Leikstjóri One Day fær heiðursverðlaun RIFF

Leikstjóri kvikmyndarinnar One Day, sem nú er í bíó hér á Íslandi, Lone Scherfig frá Danmörku, verður heiðursgestur á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, árið 2011. Scherfig hlýtur Heiðursverðlaun RIFF fyrir framúrskarandi listræna sýn. Verðlaun þessi verða veitt í nafni Frú Vigdísar Finnbogadóttur og mun afhending þeirra verða árlegur viðburður á RIFF héðan í frá.

„Þar sem verðlaunum þessum er ætlað að heiðra konu sem náð hefur langt í heimi kvikmyndanna fer vel á því að frú Vigdís Finnbogadóttir afhendi verðlaunin
í ár. Vigdís var sem kunnugt er fyrst kvenna í heiminum til að vera valin þjóðhöfðingi í lýðræðislegri kosningu og hefur um áratugaskeið talað fyrir auknu
jafnrétti kynjanna. Afhendingin fer fram í Ráðhúsi Reykjavíkur, sunnudaginn 25.september kl. 16:00,“ segir í frétt frá RIFF.

RIFF skipuleggur ennfremur masterklassa með Scherfig þann 24. september í samstarfi við WIFT (Women In Films and Television). Þar mun hún deila reynslu
sinni, tala um muninn á því að starfa innan kvikmyndaiðnaðarins í Danmörku eða Hollywood, hvað hún vildi að hún hefði vitað þegar hún byrjaði og fleira í
þeim dúr. Baltasar Kormákur mun stýra umræðum á masterklassanum.

Lone Scherfig er í hópi fremstu kvikmyndagerðarmanna Norðurlanda og hefur hlotið margvísleg verðlaun fyrir kvikmyndir sínar. Hún sló í gegn á alþjóðlegum
vettvangi með mynd sinni Ítalska fyrir byrjendur árið 2000, sem gerð var í línu við hin frægu „dogme95“ – boðorð, sem bæði Lars Von Trier og Thomas Vinterberg
hafa leikstýrt eftir. Myndin hlaut einróma lof gagnrýnenda og hlaut um leið gríðarlega aðsókn. Fyrir myndina hlaut Lone Silfurbjörninn á alþjóðlegu
kvikmyndahátíðinni í Berlín.

Ítalska fyrir byrjendur verður meðal mynda Scherfig sem sýndar verða á RIFF í ár. Auk hennar sýnir hátíðin myndirnar Wilbur Wants To Kill Himself frá 2002 og
svo nýjasta mynd hennar, One Day, sem byggð er á sögu David Nicholls og hefur vakið verðskuldaða athygli. Lone verður viðstödd sýningu mynda sinna og tekur
þátt í umræðum með áhorfendum að sýningu lokinni.

RIFF 2011 stendur yfir dagana 22.september til 2.október.