Sturlaður kokkur á RIFF – Matur og myndir

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, býður upp á ýmsa spennandi bíóflokka, en hátíðin hefst þann 22. september nk. Við höfum sagt hér á síðunni frá tónlistarflokknum, og nú er komið að matarflokknum, en sá flokkur hefur verið fastur liður undanfarin ár.
Matur og myndir heitir flokkurinn en þar er farið í ferðalag með áhorfendum og bragðlaukum þeirra, en jafnan er boðið upp á sérviðburð í tengslum við sýningu myndar úr flokknum þar sem mynd er sýnd og í kjölfarið eru svo kræsingar framreiddar af meistarakokkum í anda myndarinnar.

Í ár verður boðið upp á þrjár myndir í „Matur og myndir“ – Pig Country, Divine Pig og síðast en ekki síst El Bulli: Cooking in Progress – en eldað verður í anda þeirrar síðastnefndu eftir sýningu. Myndin er eftir hinn þýska Gereon Wetzel og fjallar um þriggja stjörnu kokkinn Ferran Adriá, en hann er af mörgum talinn besti, framsæknasti og umfram allt sturlaðasti kokkur í heimi. „Í eldhúsinu hjá honum liðast hið kunnuglega og hefðbundna í sundur og verður að matarupplifun sem storkar öllu sem áður var talið mögulegt. Veitingastaðurinn El Bulli, sem hann rekur, er lokaður hálft árið á meðan Adriá og samverkamenn hans skapa nýja rétti fyrir matseðil næsta árs í sérlegri matarsmiðju í Barcelona. Á matseðlinum er allt leyfilegt – nema að endurtaka sig,“ segir í frétt frá RIFF.

Kvikmyndin El Bulli: Cooking in Progress verður sýnd í Norræna húsinu og í kjölfarið verða meistarakrásir framreiddar af listakokkum staðarins.