RIFF hefst í dag

riffRIFF – Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík – hefst í dag, 26. september. Þetta er í tíunda skipti sem hátíðin er haldin, en hún hefur vaxið jafnt og þétt síðan árið 2004 þegar hún var haldin í fyrsta skipti. Hátíðin stendur í tíu daga, lýkur þann 6. október. Í ár fara sýningar fram í Háskólabíói, Tjarnarbíói og í Norræna húsinu, en miðasala og upplýsingamiðstöð er í Tjarnarbíói. 

RIFF sýnir í ár hátt í hundrað myndir í fullri lengd, bæði leiknar myndir og heimildamyndir auk fjölda stuttmynda. Myndirnar koma frá samtals yfir 40 löndum. Á annað hundrað erlendir gestir úr kvikmyndaheiminum eru væntanlegir til að kynna verk sín eða taka þátt í íslenskum Bransadögum og Talent Lab smiðjunni sem haldin er samhliða RIFF. Um þrjátíu leikstjórar eru væntanlegir til að fylgja eftir myndum sínum, en þremur, þeim Lukas Moodysson, Laurent Cantet og James Gray verður veitt verðlaun RIFF fyrir framúrskarandi listfengi. 

Opnunarhóf RIFF fer fram í stóra sal Háskólabíós með frumsýningu á nýrri íslenskri mynd, SVONA ER SANLITUN eftir Róbert Douglas. Iðnaðarráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, setur hátíðina, en Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri Á annan veg flytur hátíðargusuna.

Hátíðina má kynna sér nánar á hér á kvikmyndir.is eða á heimasíðu RIFF.

Stikk:

RIFF hefst í dag!

  Í dag, fimmtudaginn 25.
september, hefst Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík í fimmta
sinn, en miðasala er þegar hafin í Upplýsingamiðstöð hátíðarinnar
í Iðu. Hátíðin varir í 11 daga, eða til 5. október, og á því
tímabili verður sýnt úrval bestu kvikmynda heimsins. Allt í allt
verða sýndar um 100 kvikmyndir, þar af 74 í fullri lengd og frá
27 löndum. Hátíðin verður opnuð með hinni marglofuðu norsku
kvikmynd
O’Horten, en við opnunina mun Silja Hauksdóttir flytja hina
árlegu “hátíðargusu” og Margit F. Tveiten, sendiherra Noregs
á Íslandi, talar. Viljálmur H. Vilhjálmsson, formaður borgarráðs
setur hátíðina.

Að opnunarmyndinni lokinni
hafa kvikmyndaunnendur Íslands í raun enga afsökun til að stíga
út fyrir hlýja, myrka bíósalina og geta því einfaldlega notið
þess að vera með augun límd við hvíta tjaldið meira eða minna
alla hátíðina. Fyrir þá sem vilja njóta góðs af meiru en girnilegu
kvikmyndahlaðborðinu sem boðið er upp á verður líka spennandi
dagskrá utan hvíta tjaldsins, en daglega verða málþing, umræður,
markaðstorg og fyrirlestrar um allan bæ þar sem margir af þekktustu
og virtustu kvikmyndalistamönnum heims tala og láta sjá sig. Þar
fyrir utan verða líka ýmsir sérviðburðir þar sem kvikmyndir öðlast
nýtt og öðruvísi líf, til að mynda Kung Fu kvöld Páls Óskars
og Bílabíó þar sem sýndar verður
Sódóma Reykjavík og Dagvaktin.

Myndum hátíðarinnar er skipt
í 8 flokka, þar af 2 nýja flokka sem beina sjónum áhorfenda að
nýjum hliðum kvikmyndagerðar.

Keppnisflokkurinn Vitranir
sýnir myndir eftir ungra og efnilegra leikstjóra, en þeir keppa um
aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllta lundann. Allar myndirnar hér
hafa það sameiginlegt að vera fyrsta eða önnur kvikmynd leikstjórans
og að vera í þann mund að heilla kvikmyndaunnendur um allan heim.

Flokkurinn Fyrir opnu hafi
hefur að geyma myndir hvaðanæva að sem hafa þegar hlotið lof og
verðlaun á kvikmyndahátíðum heimsins. Þetta eru margar bestu kvikmynda
heimsins, rjóminn af alþjóðlegri kvikmyndagerð.

Í flokknum Heimildamyndir
í fókus
eru sýndar heimildamyndir um allt mögulegt, t.d. mannréttindamál,
stór kattardýr, taugahrörnunarsjúkdóma og veggjakrot.

Kastljósinu er svo beint að
argentínskri kvikmyndagerð í flokknum Sjónarrönd: Argentína,
en þar er boðið upp á þrjár gómsætar og eldheitar kvikmyndir.

Í nýja flokknum Hljóð
í mynd
er fjallað ítarlega um samspil tónlistar og kvikmynda
og þar að auki verður haldið málþing um það efni og sérlega
spennandi tónleikar með hinni eitursvölu sveit Hjaltalín.

Hinn nýji flokkur hátíðarinnar,
nýr.heimur
, tekur á umhverfismálum, sem óhætt er að segja
að brenni á heimsbyggðinni um þessar mundir. Auk þeirra heimildamynda
sem sýndar eru í flokknum verður haldið málþing sem fjallar um
ábyrgð kvikmyndagerðarmanna í umræðunni um umhverfismál. Þar
að auki hefur hátíðin lagt sitt af mörkum til að verða umhverfisvænni
í ár, þar á meðal með því að bjóða gestum hátíðarinnar
upp á fjölnota plastglös til að nota í bíóum í stað hinna hefðbundnu
einnota pappírsglasa.

Hátíðin gleymir ekki löndum sínum í flokknum Ísland í brennidepli þar sem sýnt er úrval íslenskra mynda sem munu gleðja alla landsmenn.

Sérstakur flokkur sýnir svo
myndir eftir heiðursgest hátíðarinnar, Constantin
Costa-Gavras,
en hann hlýtur einnig heiðursverðlaun fyrir ævistarf í þágu kvikmyndalistarinnar.
Hér er um að ræða einhverjar umdeildustu og umtöluðustu pólitísku
spennumyndir sögunnar.

Miðasala fer fram bæði á
netinu (
www.riff.is og www.midi.is)
og í Upplýsingamiðstöð hátíðarinnar á 2. hæð í Iðu við
Lækjargötu. Stakir miðar eru einnig seldir í sýningarhúsum hátíðarinnar,
Regnboganum, Iðnó og Norræna húsinu.

Nánast
allar myndirnar eru í gagnagrunni Kvikmyndir.is þar sem hægt er að
nálgast plaköt, trailera, söguþræði og allar nánari upplýsingar.

Upplýsingar um sýningartíma myndanna sem eru sýndar í dag má nálgast með því að smella á ,,Í bíó“ hér efst á Kvikmyndir.is