Expendables 3 í bígerð

Enn eru fimm mánuðir í hina graníthörðu (vona ég) The Expendables 2, en það virðist enginn efa það að þetta verði risastór mynd sem haugur af fólki mun sjá. Samkvæmt naglanum Randy Couture, sem er einn af sköllóttu meðlimum harðhausateymisins, er þess vegna strax byrjað að undirbúa þriðju myndina í þessari karlmannalegu seríu.

Hvort sem fullbúið handrit sé tilbúið eða ekki hefur enginn hugmynd um. Myndin fer allavega í tökur í haust, eða a.m.k. ef allt gengur vel svo ég tali nú ekki um það ef aðsóknin á EX2 verður jafngóð og menn eru að búast við. Massa (peninga) maskína hér á ferð.

Ekki er vitað heldur nákvæmlega hvaða testósterónfjöll munu snúa aftur í þriðju myndinni, en líklegast hefur það ekki verið gefið upp svo aðstandendur spilli ekki óvart fyrir manni hver eða hvort einhver deyji í nr. 2. Til að minna lesendur á það hverjir fara með aðalhlutverkin í EX2, þá er listinn svona:
Sylvester Stallone, Jason Statham, Jet Li, Bruce Willis, Liam Hemsworth, Jean-Claude Van Damme,  Ahnuld Schwarzenegger, Chuck Norris, Terry Crews og Randy Couture.

Leikstjóri myndarinnar (sem verður EKKI Pg-13, bara svo það heyrist nógu langt!) er Simon West, sá sami og færði okkur Con Air, The General’s Daughter og Tomb Raider 1.