Bill Murray í nýju Ghostbusters

bill murrayUpprunalegi Ghostbusters leikarinn Bill Murray mun koma fram í nýju Ghostbusters myndinni sem væntanleg er næsta sumar. The Wrap greinir frá þessu. Félagi hans úr upprunalegu myndinni, Dan Aykroyd, mun einnig koma við sögu.

Þeir félagar léku aðalhlutverk í Ghostbusters frá árinu 1984 og Ghostbusters 2 frá árinu 1989, ásamt Harold Ramis, Ernie Hudson og Sigourney Weaver.

Murray sagði í spjallþættinum Late Show árið 2011 að það væri fáránleg hugmynd að hann kæmi fram í nýrri Ghostbusters mynd.

Óvíst er hvert hlutverk Murray verður nákvæmlega.

Öll aðalhlutverkin í nýju myndinni eru í höndum kvenna, þeirra Kristen Wiig, Melissa McCarthy, Kate McKinnon og Leslie Jones. Leikstjóri er Paul Feig.