Eins og við sögðum frá á dögunum þá var kvikmynd Marteins Þórssonar , XL, valin til þátttöku á hátíðinni Les Arcs í Frakklandi nú í desember, þar sem hún tekur þátt í flokknum „verk í vinnslu“, eða réttara nefnt „verk í leit að alþjóðlegum dreifingaraðila“.
Marteinn segir í samtali við kvikmyndir.is að um gott tækifæri til kynningar sé að ræða. „Í fyrra var Djúpið kynnt á þessari hátíð. Baltasar [ leikstjóri Djúpsins ] er auðvitað stærra nafn og myndin hafði meira á bakvið sig en þessi litla mynd mín, en við vorum valin þarna inn.
Sá sem velur myndir inn í þennan flokk heitir Frederic Boyer, sem var listrænn stjórnandi Directors Forthnight á kvikmyndahátíðinni í Cannes og er núna listrænn stjórnandi Tribeca hátíðarinnar í New York. Þannig að það þekkja hann allir, og ef hann er að velja eitthvað þá gefur það myndinni gott vægi.“
Nokkrir söluaðilar hafa sýnt áhuga
Marteinn segir að Boyer komi sjálfur til með að kynna myndirnar sem hann valdi, sem eru alls 11 að tölu. „Það eru nokkrir söluaðilar nú þegar búnir að sýna myndinni áhuga, en við erum ekki búin að landa neinum ennþá.“
Myndin er sem stendur í hljóðvinnslu og litgreiningu, og stefnt er að frumsýningu 4. Janúar nk. í Sambíóunum.
Sjáið stikluna úr XL hér að neðan:
Marteinn segir að á Les Arcs hátíðina mæti söluaðilar og kaupendur, framleiðendur og fleiri úr kvikmyndaiðnaðinum. Hátíðin sé mátulega stór til að hægt sé að hitta alla sem maður vilji hitta. „Þetta er ekki svona risastórt eins og hátíðarnar í Toronto og í Sundance og svoleiðis.“
Aðspurður segir Marteinn að íslenskir kvikmyndagerðarmenn sendi myndir sínar yfirleitt á þessar helstu hátíðar, en það sé alltaf að verða erfiðara og erfiðara að vera valinn til þátttöku. „Myndunum er alltaf að fjölga. Eftir því sem tækninni fleygir fram er auðveldara að búa til myndir, og samkeppnin harðnar. Maður getur lítið gert nema að gera bara sitt og vona það besta.“
Fjölgun úr 700 í 2.000
Marteinn segir að mörg vötn hafi runnið til sjávar síðan hann kom fyrstu mynd sinni One Point inn í aðalkeppnina á Sundance árið 2004. „Þá völdu þeir úr 700 innsendum myndum í þann flokk sem ég var valinn í, en nú eru 2.000 myndir sendar til þátttöku í þann flokk. Allt í allt voru sendar 12.000 myndir inn á Sundance hátíðina næstu [ í janúar nk.] að stuttmyndum meðtöldum. Það er því erfitt að komast í gegn. Þá fer pólitíkin að skipta máli, og þeir sem eru þekktir og eru vel kynntir, komast efst.“
Marteinn framleiðir XL sjálfur ásamt þeim Guðmundi Óskarssyni, sem skrifar handritið með Marteini, Ragnheiði Erlingsdóttur og Ólafi Darra Ólafssyni, aðalleikara myndarinnar.
Eins og segir í kynningu myndarinnar þá er XL svona blanda af The Hangover, Fear and Loathing in Las Vegas og Memento. Fjölskyldumaðurinn fyrrverandi, flagarinn óstýriláti og áfengisþyrsti þingmaðurinn Leifur Sigurðarson (Ólafur Darri Ólafsson) er skikkaður í meðferð af vini sínum og yfirmanni, forsætisráðherra Íslands (Þorsteinn Bachmann) – en áður en hann lætur flengja sig opinberlega heldur Leifur vinum sínum matarboð. Á meðan á því stendur kynnumst við gestum og gestgjafa betur og lærum um dramatíska og grátbroslega fortíð hópsins og sérstaklega ástarsamband Leifs við hina tvítugu Æsu (María Birta Bjarnadóttir) sem jafnframt er vinkona dóttur hans. Eftir því sem Leifur djúsar meira koma fleiri leyndarmál í ljós uns það er tímabært að drífa sig heim, eða hvað? Aðeins þeim sem hafa aldur til að kjósa þingmanninn er boðið í partýið.
Átti að vera saga um fyllibyttu
Marteinn segir að hugmyndin hafi orðið til þannig að þeim hafi upphaflega langað að gera sögu um fyllibyttu, en á síðari stigum hafi þau ákveðið að fyllibyttan yrði þingmaður. „Það hefur stærri skírskotun og það passaði mjög vel fyrir karakterinn og söguna að aðalpersónan væri þingmaður, þannig að það þróaðist svona. Þá fór sagan að ganga mjög vel upp og það tók bara einn mánuð að skrifa fyrsta uppkast af handritinu.“
Marteinn bendir á að það hafi verið gerðar ýmsar myndir um heim áfengis og eiturlyfjafíknar, eins og t.d. Requiem for a Dream, Trainspotting og Leaving Las Vegas en þær hafi allar verið sagðar utanfrá. „Okkur langaði að fara meira inn í aðalsöguhetjuna, nýta okkur nýja stafræna tækni og vera miklu frjálsari hvað varðar aðferðina við frásögn sögunnar. Það eru svo miklu meiri möguleikar til að brjóta upp frásagnarformið með þessum litlu upptökuvélum í dag.
Myndin er pínu óhefðbundin. Það er rosalegur kraftur í henni. Þetta er rússíbanareið, og myndin tekur umfjöllunarefnið engum velltingatökum. Þetta er svona mynd sem sýnir fall manns, og að sama skapi fall þjóðar. Þarna er smá tilvísun í hrun, hroka og dramb og stærilæti, og meðvirkni hinna sem fylgjast með. Þetta eru stór temu þó sagan sé tiltölulega einföld.“
Íslenski dökki húmorinn er með
Marteinn segir að myndin gerist öll á Íslandi, rétt eins og síðasta mynd hans Rokland, og sé napurlega fyndin, svipað og Rokland. „Ég reyni alltaf að hafa húmorinn með, þennan íslenska dökka húmor sem er alveg spes,“ segir Marteinn.
Þó svo að myndin sé ekki tilbúin, hefur hann sýnt brot úr henni til prufu nokkrum sinnum og segir viðtökur hafa verið góðar. „Menn tala um að hún sé fersk og kraftmikil. Darri er líka geðveikt góður og María Birta og allir leikararnir. Þetta er rosa partý.“