XL sýnd á Les Arcs

Marteini Thorssyni, leikstjóra, hefur verið boðið að kynna nýjustu kvikmynd sína, XL, á hátíðinni Les Arcs í Frakklandi. Þar tekur hún þátt í flokknum „verk í vinnslu“, eða réttara nefnt „verk í leit að alþjóðlegum dreifingaraðila“.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar.

Kvikmyndahátíðin Les Arcs European Film Festival fer fram í jólamánuðinum á hverju ári og er samkvæmt tilkynningunni í hópi þeirra stærstu í Evrópu. Fleiri en 60 kvikmyndir frá löndum Evrópu verða sýndar á hátíðinni. „Á síðasta ári voru gestir rúmlega 12.000, þar af um 800 úr kvikmyndaiðnaðinum. Þá tók kvikmyndin Djúpið þátt í sama flokki og XL nú, og hafði svo gott af að í ár tekur hún þátt í aðalkeppni hátíðarinnar. Athygli vekur að sami leikari fer með aðalhlutverkið í Djúpinu og XL, Ólafur Darri Ólafsson,“ segir í tilkynningunni.

Sjáið Kitlu úr myndinni hér fyrir neðan:

XL er kvikmynd í fullri lengd og fjallar um örlagakafla í ævi þingmanns sem hefur verið skikkaður í vímuefnameðferð. Hún er fyrsta framleiðsluverkefni fyrirtækjanna Tenderlee Motion Pictures Company og Stór og Smá Productions, og hlaut á haustdögum eftirvinnslustyrk úr Kvikmyndasjóði Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Frumsýning er áætluð í janúar 2013.