8 íslenskar í kvikmyndaveislu í Kaupmannahöfn

Átta nýlegar íslenskar kvikmyndir verða sýndar í Kaupmannahöfn og Árósum á íslenskum kvikmyndadögum sem haldnir verða í borgunum nú í mars.

Kvikmyndadagarnir, sem heita „Islandsk film/ad nye veje“, hefjast í Danmörku á fimmtudaginn 7. mars. Sturla Sigurjónsson sendiherra opnar hátíðina kl. 19 í Cinemateket í hjarta Kaupmannahafnar. Sýnd verður kvikmyndin Á annan veg eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og rætt við leikstjórann að sýningu lokinni.

Á föstudag kynnir Marteinn Þórsson kvikmynd sína Rokland og ræðir hana á eftir við Birgi Thor Möller kvikmyndafræðing og aðra sýningargesti.

Í fréttatilkynningu segir að að undirbúningi hátíðarinnar standi Birgir Thor Möller í samvinnu við Cinemateket, sendiráð Íslands og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Aðrir samstarfsaðilar eru Icelandair og kvikmyndahúsið Øst for Paradis í Árósum en þar verða kvikmyndirnar sýndar dagana 23. – 29. mars.

Aðrar myndir sem sýndar verða eru Borgríki eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson, Okkar eigin Ósló eftir Reyni Lyngdal, Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson, Kóngavegur eftir Valdísi Óskardóttur, The Good Heart eftir Dag Kára og Mamma Gógó eftir Friðrik Þór Friðriksson.

Þá verða þrjár íslenskar heimildarmyndir sýndar samtímis á tónlistarkvikmyndahátíð sem nefnist Musikfilm Festivalen. Djúpið eftir Baltasar Kormák verður frumsýnd í Danmörku síðar á þessu ári.

Dagskrá íslensku kvikmyndadaganna er að finna hér.