París Norðursins valin í aðalkeppni Karlovy Vary

París norðursins, nýjasta kvikmynd leikstjórans Hafsteins Gunnars Sigurðssonar (Á annan veg), hefur verið valin til þátttöku í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Karlovy Vary, Tékklandi. Myndin verður þar að auki heimsfrumsýnd á hátíðinni.

paris

Hátíðin mun fara fram frá 4. – 12. júlí. Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Karlovy Vary er ein sú elsta í heiminum og er svokölluð „A“ hátíð, en ekki nema 14 kvikmyndahátíðir í keppnisflokki fá að bera þann stimpil.

París norðursins segir frá Huga, sem hefur fundið skjól frá flækjum lífsins í litlu, kyrrlátu þorpi úti á landi, sækir AA fundi, lærir portúgölsku og kann ágætlega við sig í fásinninu. Þegar hann fær símhringingu frá föður sínum sem boðar komu sína er hið einfalda líf skyndilega í uppnámi.

París norðursins er leikstýrt af Hafsteini Gunnari Sigurðssyni og handritið skrifaði Huldar Breiðfjörð. Í aðalhlutverkum eru Björn Thors, Helgi Björnsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir. Myndin er framleidd af Sindra Páli Kjartanssyni fyrir hönd Kjartansson og Þóri Snæ Sigurjónssyni fyrir hönd Zik Zak Kvikmynda. Meðframleiðendur eru Guillaume de Seille, Jacob Jarek, Ditte Milsted, Tobias Munthe og Skúli Fr. Malmquist.